ÞORBJÖRN Jensson, þjálfari íslenska landsliðsins í handknattleik, tilkynnti val sitt á landsliðshópnum sem heldur til þátttöku í móti sex þjóða í Hollandi í næstu viku. Liðið er eingöngu skipað leikmönnum, er leika með íslenskum félagsliðum, því ekki var unnt að fá Íslendinga erlendis lausa í verkefnið, sem felur í sér fimm leiki á jafnmörgum dögum.
Þorbjörn sagði að meginmarkmið hans í mótinu væri að kynnast því hvaða leikmenn eru í stakk búnir til að skipa laus sæti í landsliðshópnum, sem tekur þátt í úrslitakeppni Evrópumótsins í Króatíu í lok janúar. "Þetta eru fimm leikir á fimm dögum og ég veit af reynslunni hvernig það var. Það reyndi virkilega á er á leið, í þriðja leik og eftir hann. Ég vil sjá hverjir eru í stakk búnir að taka þátt í þessu móti til loka. Það er enginn vandi að vera góður í einum leik, en það er mjög erfitt að standa sig vel í fimm leikjum í röð. Ég vil sjá hverjir þola þetta," sagði Þorbjörn.

Þjóðirnar, sem leiða saman hesta sína í mótinu, eru Ítalía, Sádí-Arabía, Pólland og Egyptaland auk gestgjafanna og Íslendinga.

Bjarki hvílist og Birkir Ívar gaf ekki kost á sér

Þorbjörn sagðist hafa gert samkomulag við Bjarka Sigurðsson, leikmann Aftureldingar og margreyndan landsliðsmann, um að hann færi ekki til Hollands. Bjarki er með brotið bátsbein og rifinn lærvöðva, en lék eigi að síður með liði sínu um síðustu helgi og gerði þá tólf mörk.

Þorbjörn kvaðst jafnframt hafa íhugað að velja Birki Ívar Guðmundsson, markvörð Stjörnunnar, í hópinn, en að hann hafi ekki getað gefið kost á sér vegna anna í námi.

Daníel Ragnarsson, leikmaður Vals, er eina örvhenta skyttan í hópnum. Er Þorbjörn var spurður um úrval slíkra leikmanna í deildarkeppninni á Íslandi, sagði hann: "Það eru ekki margar frambærilegar örvhentar skyttur í deildinni. Það var svolítið erfitt að velja í þessa stöðu og hugsanlega verð ég að leysa vandann með því að láta rétthenta skyttu leika í þessari stöðu," sagði Þorbjörn.

Á fundi með fréttamönnum í gær var Þorbjörn einnig spurður um valið á Alexander Arnarsyni, línumanni HK, en ekki Sigfúsi Sigurðssyni, sem gegnir sama hlutverki hjá Val. "[Sigfús] hefur ekki leikið betur en Alexander og er engan veginn tilbúinn til að koma inn í landsliðið á þessum tímapunkti," sagði þjálfarinn.

Eitt sæti er enn laust í landsliðshópnum. Þorbjörn sagðist ætla að tilkynna hver yrði fyrir valinu á sunnudag eða mánudag. "Það verður örugglega skyttustaða, ef ég fylli í skarðið."

Landsliðshópur Þorbjörns er þannig skipaður: Markverðir eru Reynir Þór Reynisson, KA, Sebastían Alexandersson, Fram, og Bergsveinn Bergsveinsson, UMFA. Aðrir leikmenn eru Ingimundur Ingimundarson, Ólafur Sigurjónsson og Ragnar Óskarsson, ÍR, Arnar Pétursson og Hilmar Þórlindsson, Stjörnunni, Sverrir Björnsson og Alexander Arnarson, HK, Guðjón Valur Sigurðsson, KA, Valgarð Thoroddsen, Víkingi, Njörður Árnason, Fram, Daníel Ragnarsson, Val, og Magnús Már Þórðarson, UMFA.