Björn Th. Björnsson
Björn Th. Björnsson
ENN leitar Björn Th. Björnsson aftur til horfinnar tíðar í nýjustu skáldsögu sinni, Hlaðhamri . En andstætt því sem raunin hefur verið með fyrri sögulegar skáldsögur hans hafði hann að þessu sinni einungis úr afar takmörkuðum heimildum að moða.
ENN leitar Björn Th. Björnsson aftur til horfinnar tíðar í nýjustu skáldsögu sinni, Hlaðhamri. En andstætt því sem raunin hefur verið með fyrri sögulegar skáldsögur hans hafði hann að þessu sinni einungis úr afar takmörkuðum heimildum að moða. Þjóðsöguna Sögubrot af Árna á Hlaðhamri las Björn fyrst í menntaskóla og síðan segist hann aldrei hafa losnað alveg við hana, þar sem hún sé "svo átakanleg og ægileg", eins og hann orðar það sjálfur.

Þjóðsagan segir af Árna á Hlaðhamri við Hrútafjörð vestanverðan, stórlyndum og heiftræknum bónda sem myrðir tengdason sinn með grimmilegum hætti; stingur hann átján sinnum með hnífi í kviðinn. Guðrúnu, dóttur hans, þótti dauðadómurinn yfir Árna of linur og krafði yfirvöld þess réttlætis að faðir hennar yrði líflátinn með sama hætti og hann myrti Jón, mann hennar, og síðan brenndur til ösku. Var málafylgja Guðrúnar og alvara slík að dómendur urðu við óskum hennar, að því er þjóðsagan segir.

Þegar Björn er spurður hvers vegna málalyktir verði á nokkuð annan veg í skáldsögunni segir hann að refsing sú sem þjóðsagan greini frá sé ekki til í neinum lögum frá þeim tíma. "Íslendingar nota norsk lög, dönsk og íslensk á þessum tíma og þar er hvergi til neitt sem heimilar slíka aftöku manna," segir hann og bætir við að endir þjóðsögunnar hljóti að segja meira um hefndarhug söguskrifarans en raunverulegar málalyktir.

"Óskaplega skjóllaust pláss"

Björn hafði engar dómabækur að styðjast við og heldur engar kirkjubækur frá þeim tíma sem sagan á að hafa gerst á - en hann segir tímann raunar vera nokkuð óljósan. "Ég hef eiginlega tímasett þetta með því móti að nota Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, um nöfn á bæjum og fólki, til þess að hafa eitthvert jarðsamband," segir hann.

Áður en hann hóf ritun bókarinnar fór Björn á slóðir þjóðsögunnar til þess að fá í sig landslag og umhverfi. "Já, ef landslag skyldi kalla. Þetta er ægilega köld sveit og nöpur, óskaplega skjóllaust pláss," segir hann.

Í bókinni skyggnist Björn inn í huga Guðrúnar og reynir að varpa ljósi á hvað veldur hinni miklu heift. Hann lýsir sérstöku sambandi þeirra feðgina og flóknu samspili mannlegs eðlis og harðneskjulegrar náttúru. "Árni Kársson er búinn að vera vinnumaður á prestssetrinu á Prestbakka mestalla sína tíð við óblíð kjör. Síðan er hann rekinn í giftingu með fullorðinni konu og tekur við þessu örbjargarkoti, Hlaðhamri. Þannig að hann stendur í rauninni aldrei á neinu og verður hálfgerður útilegumaður. Ef Hlaðhamar hefði verið blómlegt bú hefði dóttir hans sjálfsagt alist upp við allt aðrar forsendur. Hún hefur aldrei á bæi komið og aldrei hitt annað fólk, þannig að hún er algert barn fram eftir unglingsárum," segir Björn.

Þó að svo fari oftlega um dóttur og föður, að hún fjarlægist hann æ meir eftir því sem henni vex meydómsþroski, þá varð slíkt ekki hér. Enn sem fyrr svaf Guðrún hjá pabba sínum og mátti ekki til annars hugsa, og þegar hann bjó sig af bæ, til þess að nálgast rekasmælki í fjöru eða leiddi mýlda kúna undir naut upp í Laxárdal, þá fór hún með honum, og svo þétt sem gæti hann horfið henni á sléttum vegi. Hún veitti því athygli að pabbi hennar setti ekki á neinar ræður við menn, svo fámáll og fáskiptinn, sem henni fannst þeim mun betra sem hún átti hann þá óskiptari sjálfri sér. Ekki ræddust þau tvö heldur margt við, í mesta máta að hún spyrði eftir sauðburði eða hvenær kuskus þeirra ætti sín von; stundum um veðrið.

Úr bókinni Hlaðhamar