[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skólahjúkrunarfræðingar hafa lagt metnað sinn í að bæta þjónustu, segja Ása Sjöfn Lórensdóttir og Jórunn Sigurjónsdóttir, og koma til móts við breytta tíma.

HELGI Grímsson fullyrðir í greininni "Með lyf í kennaratöskunni" er birtist í Morgunblaðinu 28. október sl., að kennurum víðs vegar um landið sé ætlað að dreifa lyfjum til hóps skólabarna samkvæmt læknisráði. Hver ætlar kennurum að sjá um lyfjagjafir? Skólayfirvöld? Foreldrar? Ekki starfsfólk skólaheilsugæslunnar. Hann furðar sig á því að skólahjúkrunarfræðingar séu gerðir "stikkfrí" þegar að lyfjagjöfum kemur. Þetta er ekki rétt. Kennarar hafa verið ósáttir við að gefa lyf og hjúkrunarfræðingar verið þeim sammála og viljað hafa umsjón með lyfjagjöfum og tryggja að þær séu öruggar. Þar sem foreldrar veita frekar kennara barnsins upplýsingar um lyfjanotkun þess en hjúkrunarfræðingnum reyndist framkvæmdin flóknari en haldið var í fyrstu. Upplýsingarnar bárust oft ekki skólahjúkrunarfræðingum. Einnig reyndist erfitt að koma til móts við þær lyfjagjafir sem eru utan viðveru skólahjúkrunarfræðings (starfshlutfall skólahjúkrunarfræðings miðast yfirleitt við nemendafjölda, 10% starf fyrir hverja 100 nemendur). Til að koma á reglu um lyfjagjafir fengum við aðstoð landlæknisembættisins og voru í haust gefin út tilmæli þar sem kveðið var á um að skólahjúkrunarfræðingar ættu að hafa umsjón með öllum lyfjagjöfum á skólatíma, auk þess að sjá um vörslu á lyfjum. Í þeim skólum þar sem hjúkrunarfræðingar hafa ekki viðveru allan daginn finna þeir ábyrgan aðila sem afhendir skólabarninu lyfin sem þeir hafa skammtað. Þessi tilmæli voru send skólastjórnendum og var ætlunin að þau væru kynnt kennurum.

Skólahjúkrunarfræðingar hafa lagt metnað sinn í að standa faglega að lyfjamálum og tryggja öryggi í lyfjagjöfum. Varsla lyfja er í höndum hjúkrunarfræðinga, í læstum hirslum, og öll skráning á lyfjagjöfum á að vera samkvæmt ákveðnum reglum á þar til gerðum eyðublöðum. Umræðan um lyfjamálin ætti því nánast að vera úr sögunni.

Hæð, þyngd og sjón

Helgi gerir verklýsingu skólahjúkrunarfræðinga einnig að umræðuefni sínu og finnst hún harla lítilfjörleg. Hæð, þyngd, sjón og e.t.v. nokkrar sprautur. Hópur skólahjúkrunarfræðinga hefur unnið tillögu að marklýsingu á starfinu og hljóðar hún upp á ýmislegt fleira. Mikil áhersla er lögð á fræðslu og forvarnarstarf og hafa áherslur breyst töluvert í gegnum árin, frá líkamsskoðunum yfir í sálfélagslega þætti. Skólahjúkrunarfræðingar taka þátt í fjölbreyttu forvarnarstarfi bæði sjálfstætt og í samvinnu við aðra. Stór hluti viðverutíma hjúkrunarfræðings í skóla á höfuðborgarsvæðinu fer í að sinna skyndikomum nemenda sem leita sér ráðlegginga, fræðslu eða þurfa andlega aðhlynningu. Þeir sinna að sjálfsögðu slysahjálp þegar þeir eru í skólanum. Ef slys verða á öðrum tímum sinnir næsta heilsugæslustöð þeim eða slysadeildin í alvarlegri tilfellum.

Hin ógnvænlega lús

Ekki er hægt annað en að brosa þegar Helgi fer að tala um "offors" aðgerðir skólahjúkrunarfræðinga gegn lúsinni. Það er ekki þeirra val að berjast með kjafti og klóm gegn þessu litla "gæludýri" sem skýtur upp kollinum í skólum landsins, og ekki ábyrgð þeirra að útrýma "vágestinum". Það hefur hins vegar verið krafa starfsfólks í sumum skólum að hjúkrunarfræðingurinn skuli útrýma lúsinni. Dæmi eru um að skólahjúkrunarfræðingar hafi ekki getað sinnt sínum faglegu störfum svo nokkru nemi vegna þessa og þeim gert að kemba hvert barn í skólanum. Það er ekki hlutverk hjúkrunarfræðingsins heldur foreldranna. Enn fengum við embætti landlæknis í lið með okkur og voru í haust gefnar út upplýsingar um hvernig standa ætti að lúsamálinu. Hlutverk hjúkrunarfræðinga er að skrá tilfellin og dreifa upplýsingum og ráðleggingum til foreldra ef lús greinist í bekkjardeild. Engar "offors" aðgerðir þar á ferð.

Tóbakið

Helgi telur að heilbrigðisyfirvöld viðurkenni ekki tóbaksneyslu grunnskólanema sem heilbrigðisvandamál. Að okkar mati er tóbaksneysla með stærstu heilbrigðisvandamálum sem finnast. Fræðsla gegn reykingum hefur verið í höndum Krabbameinsfélagsins í mörg ár og hefur það unnið ötult og gott starf. Krabbameinsfélagið og tóbaksvarnarnefnd hafa gefið út námsefni sem ætlað er nemendum í efri bekkjum grunnskóla. Hugmyndin var að kennarar kenndu námsefnið og átti það að koma í stað fræðslufyrirlestra félagsins. Á þessu hefur orðið misbrestur í sumum skólum. Kennarar hafa í einhverjum tilfellum ekki viljað eyða dýrmætum kennslustundum í þetta fræðsluefni. Einnig má benda á, að þó í skólum gildi reglur um reykingabann þá er í mörgum tilfellum ekkert gert af hálfu skólastjórnenda ef þær eru brotnar. Suma skóla skortir einnig stefnu í forvarnarmálum og því erfitt að vinna markvisst að þeim. Skólahjúkrunarfræðingar eru tilbúnir til að taka þátt í forvarnarstarfi og ætti það að vera samstarfsverkefni heilsugæslu og skóla.

Breyttir tímar

Undanfarin ár hafa orðið miklar breytingar á störfum skólahjúkrunarfræðinga, áherslur hafa breyst og aðrar kröfur eru gerðar. Starfið er í mikilli þróun og hafa faghópar unnið að samræmingu og gerð gæðastaðla til að mæta breyttum kröfum. Skólahjúkrunarfræðingar sinna þeim störfum sem Helgi telur æskilegt, s.s. lyfjagjöfum, skyndihjálp, forvörnum gegn fíkniefnum, kynfræðslu, andlegri aðhlynningu, þátttöku í nemendaverndarráði að ógleymdri lúsinni, svo eitthvað sé nefnt. Hann telur þó að starfsmenn heilsugæslunnar væru betur komnir undir skólayfirvöld en heilbrigðisyfirvöld. Ekki teljum við það betri kost. Þá væri undir hælinn lagt hversu mikilvæg starfsemin þætti af hálfu skólayfirvalda. Megináhugi skólayfirvalda liggur líklega frekar í bættum árangri nemenda í raungreinum en í bættri skólaheilsugæslu og væri fjármunum frekar varið í það. Mismunandi áherslur milli skóla gætu einnig hamlað samræmingu á þjónustu. Við teljum því farsælla að skólaheilsugæslan sé hluti af almennri heilsugæslu.

Skólahjúkrunarfræðingar hafa lagt metnað sinn í að bæta þjónustu og koma til móts við breytta tíma. Við leggjum til að þú, greinarhöfundur góður, kynnir þér málið, t.d. í eigin bæjarfélagi, og sjáir að umræðan sé komin lengra.

Höfundar eru skólahjúkrunarfræðingar í Garðabæ.