RÍKISSJÓÐUR greiðir á þessu ári 6 milljarða króna umfram það sem skylt er til B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga til að styrkja fjárhag sjóðanna og er stefnt að því að halda aukagreiðslum áfram á næstu árum...

RÍKISSJÓÐUR greiðir á þessu ári 6 milljarða króna umfram það sem skylt er til B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga til að styrkja fjárhag sjóðanna og er stefnt að því að halda aukagreiðslum áfram á næstu árum eftir því sem aðstæður leyfa. Samkvæmt skýrslu sem unnin hefur verið um fjárhag sjóðanna munu þeir að óbreyttu tæmast eftir 15-20 ár og þyrftu þá að koma til árlegar greiðslur úr ríkissjóði að upphæð 10-15 milljarðar krónar vegna ábyrgðar ríkisins á skuldbindingum sjóðanna.

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, sendi í gær Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins bréf þar sem þetta kemur fram og að stefnt sé að því að halda þessum aukagreiðslum áfram á næstu árum eftir því sem aðstæður leyfi. Gert er ráð fyrir að greiðslurnar taki mið af fjölda þeirra sem greiði til B-deildanna og geti farið lækkandi með tímanum, en forsendan fyrir aukagreiðslum er að gengið verði frá samkomulagi um meðferð þeirra fjármuna sem greiddir verða sjóðunum.

Samkvæmt framangreindri skýrslu um fjárhag sjóðanna, sem unnin var af Talnakönnun, er útlit fyrir að sjóðirnir tæmist að 15-20 árum liðnum fái þeir einungis lögbundnar greiðslur. Bakábyrgð ríkissjóðs vegna B-deilda beggja sjóðanna nemur tæpum 55 milljörðum króna á núvirði, 49 milljörðum vegna LSR og 5,5 milljörðum vegna LH. Verði ekkert að gert muni árlegar greiðslur ríkissjóðs vegna bakábyrgðar hans og hækkandi lífeyrisgreiðslna nema árlega tæpum 10 milljörðum króna árið 2015 og yrðu síðan um 15 milljarðar króna á árabilinu 2025-2030.

Verðum búnir að leysa vandann áður en hann skellur á

Geir sagði við Morgunblaðið að ef ekki yrði brugðist við þessum vanda myndi það leiða til þess að borga þyrft beint úr ríkissjóði sjálfar lífeyrisgreiðslurnar og það gæti þýtt 10 milljarða króna útgjöld árlega á núverandi verðlagi og 15 milljarða króna greiðslur nokkrum árum seinna. Þarna væri mjög alvarlegt mál á ferðinni og þess vegna væri nauðsynlegt að grípa til ráðstafana strax. Á þessu ári hefði ríkissjóður greitt umfram skyldur tæplega 6 milljarða króna til LSR af lánsfjárafgangi sínum. Á fundi með forsvarsmönnum LSR í gær hefði verið ákveðið að gera formlegt samkomulag um fyrirkomulag þessara greiðslna og hvernig með yrði farið í einstökum atriðum. Stefnt væri að því að leggja lokahönd á slíkt samkomulag í næstu viku.

"Það sem við sjáum fram á er að vera búnir að leysa vandann áður en hann skellur á, náttúrlega með góðri hjálp þeirrar ávöxtunar sem þetta fé mun fá í sjóðnum. Þetta held ég að sé eitthvað það ábyrgasta sem gert hefur verið í ríkisfjármálum um langa hríð," sagði Geir.

Hann sagði að ekki þyrfti að fara mörgum orðum um hve mikil byrði það yrði ríkissjóði að þurfa árlega að greiða 10-15 milljarða vegna lífeyrisskuldbindinga ríkisstarfsmanna.