EVRAN hélt sig rétt ofan við þriggja daga lágmark í gær, eftir að Otmar Issing, yfirhagfræðingur Seðlabanka Evrópu, kunngerði þá skoðun sína að upphafsverð evrunnar í janúar síðastliðnum hefði klárlega verið í hærri kantinum.
EVRAN hélt sig rétt ofan við þriggja daga lágmark í gær, eftir að Otmar Issing, yfirhagfræðingur Seðlabanka Evrópu, kunngerði þá skoðun sína að upphafsverð evrunnar í janúar síðastliðnum hefði klárlega verið í hærri kantinum. Við lokun markaða í New York hafði Dow Jones vísitalan hækkað um 0,60% og stóð í 11.134,79 stigum. Nasdaq vísitalan hækkaði um 0,23% og Standard&Poor 500 vísitalan hækkaði um 0,30%. Hækkunin á Wall Street hjálpaði evrópskum hlutabréfamörkuðum að framlengja hækkanir frá því um morguninn, og höfðu hækkanir á hlutabréfum í orkufyrirtækjum þar sérstök áhrif. Af evrópskum hlutabréfavísitölum hækkaði Eurotop 300 vísitalan um 0,47%, en Stoxx 50 vísitalan hækkaði minna eða um 0,16%. FTSE100 vísitalan í London hækkaði um 0,9%, DAX vísitalan í Frankfurt um 0,04% og CAC vísitalan í París hækkaði um 1,1%. Peningamálanefnd Englandsbanka ákvarðaði að vextir skyldur vera óbreyttir í Bretlandi, eins og búist hafði verið við. Sterlingspundið hreyfðist ekki við tíðindin, enda gera markaðsaðilar ráð fyrir vaxtahækkun eftir áramót. Evran tók við sér og hækkaði lítið eitt þegar bankastjóri þýska seðlabankans Bundesbank, Ernst Welteke, sagði augljós merki vera um lotubundinn hagvöxt í þýska hagkerfinu. Ríkisskuldabréf á evru-svæðinu hækkuðu í verði þrátt fyrir veika stöðu evrunnar, og ávöxtunarkrafa 10 ára þýskra ríkisskuldabréfa lækkaði um 2,8 punkta í 5,039%.