SAMKEPPNISRÁÐ hefur kveðið upp þann úrskurð að Eðalvörum ehf. sé bannað að birta auglýsingu fyrir Acidophilus+ mjólkursýrugerla þar sem segir að varan fáist í öllum apótekum nema Lyfju. Ráðið telur auglýsinguna brjóta í bága við ákvæði samkeppnislega.

SAMKEPPNISRÁÐ hefur kveðið upp þann úrskurð að Eðalvörum ehf. sé bannað að birta auglýsingu fyrir Acidophilus+ mjólkursýrugerla þar sem segir að varan fáist í öllum apótekum nema Lyfju. Ráðið telur auglýsinguna brjóta í bága við ákvæði samkeppnislega.

Lyfja kvartaði sl. sumar til Samkeppnisstofnunar yfir auglýsingunni, sem birst hafði í nokkrum fjölmiðlum. Þar var virkni mjólkursýrugerlanna lýst og auk þess tilkynnt með áberandi letri að varan fengist í öllum apótekum nema Lyfju.

Lyfja taldi þetta skýrt brot á ákvæðum samkeppnislaga um óréttmæta viðskiptahætti.

Auglýsinganefnd Samkeppnisstofnunar fjallaði um málið og komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtæki, sem með löglegum hætti kýs að selja ekki vörur, eigi ekki að þurfa að sæta því að það sé sérstaklega tilgreint í auglýsingum. "Slík framsetning er til þess fallin að gefa neikvæða mynd af fyrirtækinu og er ósanngjörn gagnvart neytendum. Auglýsingin brýtur því gegn ákvæðum 21. gr. samkeppnislaga," segir í niðurstöðum nefndarinnar.

Samkeppnisráð lýsti sig sammála þessari niðurstöðu. Jafnframt taldi ráðið brotið gegn góðum viðskiptaháttum og þar með gegn 20. grein samkeppnislaga. Ráðið bannaði Eðalvörum að auglýsa með orðunum "fæst í öllum apótekum nema Lyfju" þar sem slíkt sé ósanngjarnt og til þess fallið að gefa neikvæða mynd af fyrirtækinu.