Liðsmenn Leeds geta þakkað Luicas Radebe fyrir að þeir komust í fjórðu umferð Evrópukeppninnar.
Liðsmenn Leeds geta þakkað Luicas Radebe fyrir að þeir komust í fjórðu umferð Evrópukeppninnar. Eftir að hafa tapað 2:1 fyrir Spartak Moskvu í fyrri leik liðanna leit lengi vel út fyrir að Moskvuliðið kæmist áfram þegar liðin áttust við á Elland Road í gær. Hvorki gekk né rak hjá Leeds að setja mark og það var ekki fyrr en á 84. mínútu sem Radebe skoraði markið mikilvæga, sem nægði til að jafna metin og koma David O'Leary og lærisveinum áfram á marki á útivelli. En hurð skall nærri hælum þeirra á lokamínútunni er leikmenn Spartak áttu skot í slá, knötturinn hrökk niður og þaðan út í teig.

Newcastle var ekki eins heppið. Það náði ekki að skora gegn Roma á St. James Park þrátt fyrir að ekki vantaði ákafann. Niðurstaðan var markalaust jafntefli og Roma komst áfram á marki á heimavelli.

"Íslendingaliðin" í keppninni, AEK Aþena og Panathinaikos, féllu bæði úr leik. AEK Aþena tapaði 1:0 fyrir Mónakó í Mónakó og samtals 3:2. Marco Simone skoraði markið góða fyrir Mónakó með skalla á 32. mínútu. Arnar Grétarsson lék með AEK þar til á 68. mínútu að honum var skipt út af. Markvörður Mónakó, Fabien Barthez, sem nýstiginn er upp úr meiðslum, varð að fara af leikvelli snemma leiks vegna meiðsla í nára. Óttast er að meiðslin séu alvarleg og sé svo er það talsvert áfall fyrir liðið sem er í efsta sæti frönsku deildarinnar.

Helgi Sigurðsson og samherjar í Panathinaikos áttu hins vegar við ramman reip að draga eftir 4:2 tap fyrir Deportivo Coruna í fyrri leik liðanna á Spáni. Aliosa Asanovic kom Panathinaikos yfir á 77. mínútu en það dugði skammt við spænsku gestina sem gáfu ekki frekari færi á sér, gerðu reyndar gott betur, jöfnuðu á lokamínútunni. Helgi kom inn á sem varamaður í lið Panathinaikos á 46. mínútu. Hann átti tvö skot í markstangir marks Deportivo. Arsenal komst örugglega áfram þrátt fyrir 3:3 jafntefli við Nantes því liðið vann fyrri leikinn 3:0. Arsenal komst í 3:1 með mörkum Gilles Grimandi, Thierry Henry og Marc Overmars í fyrri hálfleik. Ein óvæntustu úrslit gærdagsins voru í leik Kaiserslautern og Lens, en leikurinn fór fram í Þýskalandi. Franska liðið mætti ákveðið til leiks og vann sannfærandi, 4:1, og samtals 5:3.