Lífið er endalaust röð vandamála sem við þurfum að leysa og það útheimtir bæði hugrekki og visku.
Lífið er endalaust röð vandamála sem við þurfum að leysa og það útheimtir bæði hugrekki og visku.
Tilfinningar, hamingja, sambönd, sjálfsálit, sjálfsmynd. Einnig sigur á kvíða og þunglyndi. En hvernig? Gunnar Hersveinn spurði Önnu Valdimarsdóttur sem hefur skrifað bók um leiðir fyrir einstaklinga til að vera þeir sjálfir.

VIÐ berum ábyrgð á hvað við gerum úr því sem í okkur býr", "Hvernig manneskja vil ég vera? Hvernig lífi vil ég lifa?", "Maðurinn er ekki viljalaust verkfæri eða leiksoppur örlaganna", "Að viðurkenna vanlíðan og vonleysi er ekki sjálfsvorkunn", "Mörg okkar eru því marki brennd að vilja vera annað en við erum", "Ef þú átt þér ekki draum, hvernig ætlarðu þá að láta drauminn rætast", "Okkur líður eins og við hugsum". Anna Valdimarsdóttir sálfræðingur hefur skrifað bók um sjálfsstyrkingu, sem á margt sameiginlegt með mannhyggjusálfræði, en helsti frumkvöðull hennar er Abraham Maslow. Mikil áhersla er lögð á frelsi viljans og frelsi manna til að velja og hafna, og einnig eru tilfinningar hátt skrifaðar. Segja má að boðskapurinn sé að jákvæð hugsun og viðbrögð geti breytt lífi einstaklinga til betri vegar. Þeir hafi vald til að verða nýir.

Markmiðið með sjálfsstyrkingu er þríþætt: "Að gera sér grein fyrir rétti sínum og geta tekið sér þann rétt án þess að sýna tillitsleysi eða yfirgang. Að temja sér framkomu sem ber vott um sjálfsöryggi eins og að standa fyrir máli sínu, svara fyrir sig, tjá tilfinningar sínar og halda uppi samræðum. Og í þriðja lagi að draga úr eða breyta hugsunarhætti sem elur á erfiðum tilfinningum.(bls 155). Bók Önnu heitir Leggðu rækt við sjálfan þig. (Forlagið 1999) og er byggð á hugmyndum hennar og reynslu í starfi á sálfræðistofu um hvernig gott sé að fást við það verkefni sem lífið er, að lifa innihaldsríku lífi og gæða það merkingu. "Enginn gerir það fyrir okkur og enginn lofaði að það yrði auðvelt. Lífið er endalaus röð vandamála sem við þurfum að leysa og það útheimtir bæði hugrekki og visku," skrifar Anna en bókin er ýtarleg og spannar nær 300 síður. Hún er um gildin sem einstaklingar þurfa að rækta með sér vilji þeir lifa bærilegu lífi; tilfinningar, hamingju, sambönd, sjálfsálit, góða sjálfsmyndo.s.frv. og einnig um hvernig megi e.t.v. sigrast á kvíða og þunglyndi. En hvernig túlkar hún frelsi viljans?

Frelsi viljans

"Einstaklingur býr ekki við algjört frelsi frá lífsskilyrðum. Hann ræður ekki erfðum sínum, á hvaða tímaskeiði hann fæðist, inn í hvaða samfélagi, né hver fjölskylda hans verður," segir hún, "en hann hefur frelsi til að taka afstöðu til lífsskilyrða sinna, og hann hefur frelsi til að velja sér viðhorf til sjálfs sín og annarra."

Á hinn bóginn getur hann ekki ákveðið að losa sig við erfiða og sára lífsreynslu með viljaátaki, að mati hennar líkt og Sæmundur fróði sem losaði sig við skuggann sinn í Svartaskóla. "Öll eigum við okkar drösul að draga," segir Anna, "en við höfum frelsi til að ákveða hvernig við vinnum úr lífsreynslu okkar á ábyrgan hátt og án þess að lifa sem fórnarlömb."

Anna er algerlega á móti þeirri skoðun/afsökun sem sumir stunda með orðunum: "Ég er bara svona, ég get ekki annað" eða "Hann er bara svona og getur ekki að því gert". Hún er fullviss um að persónur geti breytt sér og unnið með eigin galla og kosti. "Þótt barnæskan sé lifandi með hverjum fullorðnum manni og þótt hún hafi verið sársaukafull er það í höndum hvers og eins að umskapa hana og gefa henni nýja merkingu eða tilgang," segir Anna.

Tilfinningar viðurkenndar

Tilfinningar eru ekki feimnismál í bókinni hennar, þótt þær verði oft hornreka bæði innan sálfræði og annarra fræða. Skynsemin var snemma í sögu vestrænna vísinda sett á stall. "Oft er sagt: "Hann er greindur vel, og oft er skynsemi manna heiðruð," segir Anna, "en það vill gleymast að í tilfinningum býr djúp viska og henni þarf að gefa gaum ef vel á að fara." Tilfinningum þarf m.ö.o. að gera hátt undir höfði. "Einstaklingurinn þarf að þekkja tilfinningar sínar, hann lærir ekki með því að loka á þær, bæla eða rangtúlka þær. Hann þarf að finna fyrir tilfinningum sínum.

"Það virðist vera einfalt að vita hvað tilfinngar manns segja, en það er það ekki, og við vitum það oft ekki fyrr en eftir á. Það tekur tíma að átta sig á sjálfum sér," segir hún, "við þörfnumst æðruleysis til að gefa tilfinningum okkar gaum. Að hætta að hunsa þær eða berjast gegn þeim og íhuga þær í staðinn. Leyfa sér um stund að hugsa: "Mér líður illa, hvers vegna ætli það sé?" Fremur en að haga sér eins og þær séu ekki til og athuga hvort tilfinningarnar séu í samræmi við tilefnið sem vakti þær. Ef til vill er ástæða einhverra þeirra falin í fortíðinni og stjórna því hvernig manni líður." Fyrsta skrefið er að viðurkenna tilfinninguna. Eftir það má hafa áhrif á hana og ef til vill breyta henni eftir að hafa séð hana í nýju ljósi.

Gleði/þunglyndi

Gleðin er björtust allra tilfinninga, hún er Venus á næturhimninum. Predikarinn sagði: Et, drekk og ver glaður. Gleðin ein stóðst grimma rannsókn hans á mannlífinu. "Gleðin er eftirsóknarvert tilfinningaástand. Hún er svo mikilvæg vegna þess að svo margt í lífinu er barátta," segir Anna, "þegar fólk finnur til sterkrar einlægrar gleði veit það að lífið er þess virði að lifa því."

Gleðin sprettur sennilega oftar fram ef fólk hefur fundið lífi sínu tilgang (ath. tilgang lífsins). Aftur á móti er ekki heillavænlegt að gera kröfu um að lífið sé alltaf skemmtilegt. Það gefur lífinu nefnilega gildi að sigrast á erfiðum aðstæðum og leysa úr verkefnum sem lífið færir sérhverjum manni.

Þunglyndi er andstæða gleðinnar, og fjallar Anna sérstaklega um það í bókinni. "Að breyta hugsunarhætti sínum til betri vegar er einnig mikilvægur liður í því að njóta ánægju og vellíðunar í lífi sínu og koma í veg fyrir þunglyndi. Við breytum líðan okkar með því að breyta hugsun og hegðun," segir hún. En þunglyndi er ekki einfalt mál, og rétta meðferð við því þarf að kanna fyrir sérhvern einstakling. Anna fjallar um þunglyndi út frá kenningunni um lært úrræðaleysi, en samkvæmt henni getur fólk orðið þunglynt þegar það missir trúna á að það geti gert eitthvað sjálft til að láta sér líða betur. "Hugsunarháttur sem elur á depurð á viðheldur þunglyndinu og neikvæð sjálfsmynd skapar sektarkennd einstaklingsins. Það sem stendur í bókinni um þetta er hugsað sem fyrirbyggjandi þáttur og til að benda á hvað einstaklingur geti gert sjálfur," segir Anna og að þunglyndi hrjái konur í talsvert meira mæli en karlmenn. Þær virðast hafa meiri tilhneigingu til að grufla í vandamálum sínum en karlmenn. "Einnig má velta fyrir sér hvort félagsmótun kvenna í gegnum tíðina ýti fremur undir lært úrræðaleysi hjá þeim en karlmönnum," skrifar Anna (bls. 150).

Tilgangur lífsins

Einstaklingurinn leggur rækt við sjálfan sig, hann lærir að þekkjafinningar sínar betur og beita vilja sínum. Gleðin vex en hvert er markmiðið? "Ég er viss um að margir geti tekið undir það að yfirmarkmiðið er að þroskast," segir hún og er ekki höll undir það viðhorf að tilgangurinn sé fyrirfram gefinn. Hún telur rétt að spyrja sig reglulega: "Hver er tilgangur lífs míns?" og að tilgangurinn sé að leysa úr aðsteðjandi tilvistarverkefnum sem geta verið ýmiss konar, eins og að skrifa bók, vinna úr sorg, helga sig ungum börnum, ná mikilvægum áfanga í starfi eða að hlúa að einhverjum í fjölskyldunni.

"Ég tel að tilgangurinn sé breytilegur, enda breytumst við sjálf með tímanum og flytjumst milli þroskastiga. Það sem áður var eftirsóknarvert er það ekki lengur, heldur er annað nýtt komið í stað þess. Mikilvægt er að við óttumst ekki þessar breytingar á okkur sjálfum, heldur teljum þær fremur eftirsóknarverðar."

"Eitt mikilvægasta þroskaverkefni fullorðinsáranna er að öðlast skýra tilfinningu fyrir sjálfum sér. Að vita hver maður er felst meðal annars í að hafa skoðanir og gera sér skýra grein fyrir gildismati og viðhorfi sínu," skrifar Anna (bls 154). Hún er hér að kenna sjálfsstyrkingu og benda á að einstaklingurinn geti gert ýmislegt sjálfur til að betrumbæta sig. Hún býst ekki við að innihald textans komi á óvart, því hann ætti að vera í samræmi við innri raddir manna. Hinsvegar vonar hún að einhverjir muni gleðjast að sjá það orðað sem þá grunaði.

Að standa með sjálfum sér

"Sjálfsstyrking er ákveðið hugtak í sálfræði sem varð útbreitt á 8. áratugnum. Hugmyndin er að einstaklingurinn sé einstakur, og að enginn eigi að afsala sér tilfinningum sínum og skoðunum. Ef við viljum verða hamingjusöm þurfum við að kunna að bregðast við innra með sjálfum okkur: Ná tökum á tilfinningum okkar og geðbrigðum, að hugsa skýrt og vera meðvituð um í hverju ábyrgð okkar er fólgin og hvar hún endar," segir hún.

Anna segir að einstaklingurinn þurfi á sjálfsstyrk að halda en það felst í því að fara hinn gullna meðalveg. Standa með sjálfum sér og tjá skoðanir sínar og tilfinningar á hreinskilinn og viðeigandi hátt. Hún segir einnig að mikilvægt sé að aðgreina sjálfsstyrk frá uppburðarleysi og óákveðni, og yfirgangssemi eða tillitsleysi. Þegar einstaklingur sýnir sjálfsstyrk, lætur hann í ljós hvað honum finnst og hann gerir það á viðeigandi og kurteislegan hátt. Hann kemur hreint fram og lætur aðra vita um skoðanir sínar en gefur jafnframt glöggt til kynna að hann sé reiðubúinn til að hlusta á mál annarra.

Anna segir hugmyndina um sjálfsstyrkinn í góðu samræmi við siðfræði Aristótelesar sem sagði að farsæld felist meðal annars í ræktun mannlegra eiginleika, eða að gera það besta úr sjálfum sér og lífi sínu. Anna telur leiðina til betra lífs hefjast á því að leggja sig fram um að hugsa skýrt. Sérhver einstaklingur er að einhverju leyti týndur í þoku sjálfsblekkingarinnar, en hann ber sjálfur ábyrgð á því og einnig að verða við þeirri sjálfsögðu kröfu að skerpa sjón sína á sjálfan sig og aðra: Verða jákvæður í eigin garð, ákveða að stefna að hamingjunni, sýna auðmýkt, bera umhyggju fyrir sjálfum sér, vinna gegn ofmati og temja sér raunsæi.