UM NOKKURN tíma hafa verið á kreiki sögusagnir um að stúlkurnar fjórar í hljómsveitinni Spice Girls ætli að halda hver í sína áttina en þrjár þeirra, Mel G, Mel C, og Emma Bunton hafa þegar hafið sólóferil.

UM NOKKURN tíma hafa verið á kreiki sögusagnir um að stúlkurnar fjórar í hljómsveitinni Spice Girls ætli að halda hver í sína áttina en þrjár þeirra, Mel G, Mel C, og Emma Bunton hafa þegar hafið sólóferil. En stúlkurnar gera sitt besta til að kveða niður þessar sögur og eru um þessar mundir á stuttri tónleikaferð um England. Í samtali við blaðið Sun sögðust þær stefna að lengra tónleikaferðalagi á næsta ári. "Þriðja platan okkar mun koma út á næsta ári og við ætlum að syngja aftur fyrir aðdáendur okkar," sagði Mel G. Emma Bunton bætti við: "Við höfum allar verið að sinna eigin málum um skeið en það er spennandi að vinna aftur saman sem Spice Girls. Nú er það kvennaaflið en ekki stúlknaaflið [e. girl power] sem gildir."

Spice Girls voru nýlega valdar versta hljómsveit ársins enda hafa þær ekki verið duglegar að koma fram saman þetta árið. Þær eiga hins vegar tvær af mest seldu plötum aldarinnar sem verður að teljast þeim til tekna.