Sæunn Kjartansdóttir
Sæunn Kjartansdóttir
eftir Sæunni Kjartansdóttur.

SÆUNNI Kjartansdóttur kannast margir við því hún hefur fjallað nokkuð um fíkn og átröskun í blaðagreinum sem vakið hafa athygli. Sæunn er hjúkrunarfræðingur að mennt, en síðan nam hún sálgreiningu í Bretlandi þar sem hún bjó í nokkur ár. Hún sendir nú frá sér sína fyrstu bók, sem hún nefnir Hvað gengur fólki til? og er undirtitill bókarinnar "Leit sálgreiningar að skilningi". Hún lýsir sálgreiningu sem sérhæfðri tegund viðtalsmeðferðar sem byggist á samnefndum kenningum um mótun og þroska persónuleikans. Markmiðið sé að efla sjálfsskilning sjúklings og getu hans til að mynda heilbrigð tengsl við aðra. Ástæður þess að fólk leiti sálgreiningar geti verið margar og misalvarlegar en aðferð hennar einskorðist við samtöl tveggja einstaklinga, sjúklings og sálgreinis (bls.51-52). Eftir formála, þar sem ég hnaut um neikvæða afstöðu höfundar gagnvart öðrum íslenzkum meðferðaraðilum, einkum sálfræðingum og inngang, þar sem nefndur var á nafn geðlæknirinn Michael Balint (sem ég hef reyndar alltaf haft sérstakt dálæti á eftir að hafa lesið fyrir löngu bók hans um lækninn, sjúkling hans og sjúkdóminn) lagði ég síðan bjartsýn til atlögu við megintexta bókarinnar. Einhvern veginn var mér þó ekkert farið að lítast á blikuna undir lestri kaflanna "Í upphafi var Freud", "Árásargjörnu ungbörnin hennar Melanie Klein" og "Viðfangstengslakenning" af því að ég fékk á tilfinninguna að textinn væri að mestu (stirðlega) þýddur upp úr enskum fræðibókum og þar væri ekki margt bitastætt frá hendi höfundar. En síðan fór að rætast úr og svo fór að lokum að mér fannst Sæunn komast vel á flug og síðustu kafla bókarinnar skrifar hún eins og sá sem hefur margt til mála að leggja, þarf að miðla til annarra þekkingu sinni og gerir það prýðilega. Kannski var það tilvitnun í texta úr bókinni Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar eftir Guðberg Bergsson í upphafi kafla um sjónarhorn feminískra sálgreina sem vakti sérstaka athygli mína (bls. 41), en þar segir að móðirin sé hin sanna uppspretta óttans. Ég hugsaði með mér að nú næði ég loks sambandi við Sæunni. Þetta varð að augnabliki uppljómunarinnar.

Sæunn kýs að skrifa bók sína út frá sjónarhóli fræðanna og fjallar því um margvísleg vandamál sem örugglega hefðu hvert um sig þolað enn ítarlegri umræðu og eru fyrir leitandi lesanda ef til vill betur komin hvert í sína bókina. Ég nefni helztu viðfangsefnin, en þau eru átröskun, að kúga eða vera kúgaður, kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum og loks fíkn. Átröskun er íslenzk þýðing á orðinu anorexia. Hennar gætir helzt hjá unglingsstúlkum, ekki sízt þeim sem eru óöruggar, hafa efasemdir um eigið ágæti eða finnst of mikils af sér vænzt. Þær fara að hafa mikinn áhuga á eigin útliti og holdafari, öll afskipti foreldra gera stúlkuna einungis staðfastari í að stjórna því hvað hún lætur ofan í sig og úr verður valdabarátta sem skilar litlu öðru en sárindum ( bls. 99). Mér finnst höfundur fjalla um anorexiu á næman hátt og fróðlegan.

Sæunn er gagnrýnin á margt sem viðgengizt hefur í meðferð við ofneyzlu áfengis og vímuefna hér á landi, ekki sízt það að afgreiða fíkn sem sjúkdóm. Vandamálið er fíkn og lausnin bindindi? Eða hvað? Skjót og einföld úrræði. En tilvera okkar og vandamál eru flóknari og margslungnari en svo, (bls 129) og Sæunn heldur uppi djarfri rökræðu fyrir því að nálgast fíkn á annan hátt. Hana grunar að önnur ástæða sé fyrir því að meðferðaraðilar séu ekki mjög áhugasamir um sálrænar orsakaskýringar, en það sé ótti við að ofneytendur grípi til þeirra til þess að réttlæta sig og firri sig ábyrgð gerða sinna. Til þess að losa sig við vanlíðan eða koma í veg fyrir hana grípur ofneytandinn til áfengis, matar, peningaeyðslu, kynlífs eða óhóflegrar vinnu. Vegna þess að viðbrögð hans eru óviðeigandi geta þau aldrei veitt varanlega fullnægju, en af því að þau veita tímabundna fróun og draga athygli frá þörfinni eru þau endurtekin aftur og aftur. Sálgreining leitar að mati Sæunnar ekki orsaka fyrir ofnotkun í efnaskiptum líkamans eða gerð vímuefnisins, heldur í hvöt einstaklingsins til að neyta þess. Sá sem þjáist af verkjum ánetjast því efni sem slær á verkina, vegna þess að það er ávanabindandi að vera verkjalaus. Hins vegar eru verkir ofneytandans þess eðlis að hvorki vímuefni né áfengi geta upprætt þá, þvert á móti verka þau eins og olía á eld. Þegar víman rennur af honum hefur ekkert breytzt nema líðan hans sem hefur versnað og eina leið hans þá sem fyrr er að þurrka hana út með meiri neyzlu (bls. 133). Fróðleg bók þegar höfundur kemst á flug.

Katrín Fjeldsted