Valtýr Guðmundsson og Jóhannes Jóhannesson
Valtýr Guðmundsson og Jóhannes Jóhannesson
Bréfaskipti Valtýs Guðmundssonar og Jóhannesar Jóhannessonar 1895-1909. Jón Þ. Þór bjó til pr. 320 bls. Nýja bókafélagið. Prentun: Steinholt ehf. Reykjavík, 1999.

BRÉFASKIPTI þau, sem birt eru í bók þessari, hefjast 1895 þegar Valtýr Guðmundsson tekur í samvinnu við danska stjórnmálamenn að leggja drög að nýjum sambandslagasáttmála Íslands og Danmerkur, þeim sem síðar voru við hann kennd og kölluð valtýska. Jóhannes Jóhannesson var þá sýslumaður í Húnavatnssýslu en nokkru síðar skipaður bæjarfógeti á Seyðisfirði. Flest eru bréfin frá Valtý til hans en nokkur frá Jóhannesi til Valtýs. Síðustu bréfin eru skrifuð seint á árinu 1909 þegar Valtýr lætur af þingmennsku. Þá voru nýorðin kaflaskil í sjálfstæðisbaráttunni þar sem uppkastinu svo kallaða hafði verið hafnað í kosningum. Það voru reyndar fyrstu leynilegu kosningarnar.

Íslendingar voru lengi búnir að þæfa við Dani um einhverjar breytingar á sambandi landanna þegar Valtýr kom fram á sjónarsviðið. Allt til þess hafði hvorki gengið né rekið. Estrup-stjórninni varð ekki haggað. Valtýr kom því færandi hendi með frumvarp sitt. Fljótt á litið fólst í því veruleg stjórnarbót. En sá böggull fylgdi skammrifi að þingið mátti engu hnika. Danska stjórnin mundi aðeins samþykkja það óbreytt.

Valtýr Guðmundsson var þá ungur maður, ötull og metnaðargjarn. Bréf hans, mörg og löng, bera með sér að hann leit á stjórnmálin sem valdatafl. Hann sá í hendi sér að nú væri sinn tími kominn. Íslendingar, sem börðust fyrir heimastjórn, áttu að fá sérstakan ráðgjafa. En hann átti ekki að sitja í Reykjavík eins og mörgum þótti sjálfsagt heldur í Kaupmannahöfn. Auðvitað ætlaði Valtýr sjálfum sér embættið. Þar sem hann var þegar búsettur í Höfn og gegndi þar föstu starfi var frumvarpið eins og sniðið fyrir hann.

Tillögur hans hlutu strax sterkan og víðtækan hljómgrunn. Samt náðu þær aldrei fram að ganga. Hann skrifaði öllum þingmönnum bréf nema Benedikt Sveinssyni. Þar telur Jón Þ. Þór að hann hafi gert slæma skyssu. Árin liðu við sama þrefið. Og tíminn hljóp frá Valtý. Hann var ekki orðinn fimmtugur þegar hann vék af vettvangi stjórnmálanna. Valtýskan taldist þá endanlega til liðna tímans. Tuttugu ár átti hann þá ólifuð sem prófessor í Kaupmannahöfn.

Jóhannes Jóhannesson var mágur Valtýs þar sem Anna, kona Valtýs, var systir Jóhannesar. Ljóst er af bréfunum að mágsemd þeirra hefur verið hin besta. Þó hafa þeir verið menn ólíkir. Valtýr er einatt að kvabba í mági sínum. Og Jóhannes reynir að gera sitt besta til að verða við óskum hans. Að sjálfsögðu naut Valtýr fylgis Jóhannesar í pólitíkinni. Vegna vináttu og mágsemda gat hann sýnt Jóhannesi fullan trúnað og leyft honum að fylgjast með ráðabruggi sínu á bak við tjöldin. Þegar Jóhannes er svo sjálfur kominn út í stjórnmálin, en hann var fyrst kosinn á þing aldamótaárið 1900, sparar Valtýr ekki að gefa honum góð ráð!

Jóhannes sýnist hafa tekið því með jafnaðargeði. Ákafamaður í líkingu við Valtý hefur hann ekki verið. Hann var fyrst og fremst embættismaður, skyldurækinn og raunsær og hefur vafalaust komið auga á veilurnar í málflutningi Valtýs þótt hann léti kyrrt liggja.

Svo er talið að um aldamótin hafi Ísland verið hvað lengst á eftir öðrum löndum sem það hefur nokkru sinni verið fyrr og síðar. Í raun var landið enn eins og það hafði verið við lok landnámsaldar. Samgöngur á landi voru enn með svipuðum hætti. Ferðalög um eða umhverfis landið voru erfið og tafsöm. Ekki er laust við að nokkurrar þreytu gæti í þessum orðum Jóhannesar: »Það er annars ekki gaman,« segir hann í bréfi sem hann skrifaði Valtý vorið 1896, »að eiga við svona mál, þar sem hver situr í sínu horni og menn ná ekki einu sinni að tala saman og brjef geta ekki gengið á milli nema á óratíma.«

Orð þessi lýsa vel í hverju vandi Íslands var öðru fremur fólginn, það er að segja í fámenni þjóðarinnar í stóru, strjálbýlu og erfiðu landi. Það var ekki á valdi þjóðar, sem var ekki nema áttatíu þúsund, að halda uppi greiðum samgöngum innanlands og við önnur lönd.

Þegar bréfaskiptum þeirra máganna lýkur átti Jóhannes Jóhannesson eftir að koma mikið við sögu, bæði sem embættis- og stjórnmálamaður. Hann varð bæjarfógeti í Reykjavík og sat á Alþingi til 1931, þingmaður Seyðfirðinga. Forseti sameinaðs þings var hann um skeið. Hann fæddist átta árum fyrr en Íslendingar fengu stjórnarskrá og lifði nokkur ár fram yfir stofnun lýðveldis. Hann gat því fylgst með sjálfstæðisbaráttunni nokkurn veginn frá upphafi til enda ef undan er skilin endurreisn Alþingis og þjóðfundurinn 1851. Vafalaust hafa þeir mágarnir haldið áfram að skrifast á. En þau bréfaskipti falla utan ramma þessarar bókar sem einskorðast við tiltekið málefni

Jón Þ. Þór segir meðal annars um tímabilið 1895 til 1910 í inngangi: »Sjaldan eða aldrei hafa pólitískar fylkingar tekist á af jafn mikilli hörku hér á landi og færa má gild rök fyrir því, að á þessum tíma hafi tekið þátt í stjórnmálum meira mannval en á nokkru öðru viðlíka löngu skeiði í sögu þjóðarinnar.«

Hér er kveðið fast að orði. Víst var baráttan hörð á þessum árum, sérstaklega var tekist á um uppkastið sem fellt var sumarið 1908. Stjórnmálamenn komu skoðunum sínum á framfæri í blöðunum sem voru ótrúlega mörg og gefin út víðsvegar um landið. Almenningur fylgdist því vel með þrátt fyrir strjálbýlið. Og fáir voru þeir sem höfðu ekki einhverja skoðun á málunum. Samkennd pólitískra samherja var afar sterk. Þetta voru umbrotaár, en einnig ár bjartsýni og stórra fyrirheita. Bréf þeirra, Jóhannesar og Valtýs, eru því merkileg heimild um mestu hita- og ágreiningsmál þessara ára.

Erlendur Jónsson