Ásta Möller
Ásta Möller
Alþjóðlegum sakamáladómstól, segir Ásta Möller, er ætlað að lögsækja einstaklinga sem grunaðir eru um yfirgang, stríðsglæpi, þátttöku í þjóðarmorði eða aðra alvarlega glæpi gegn mannkyni.

Á undanförnum mánuðum hefur heimsbyggðin orðið vitni að hörmulegum glæpum gagnvart saklausu fólki á ófriðarsvæðum. Nútímafrásagnartækni hefur fært okkur miskunnarlausar og ljóslifandi lýsingar af örlögum fólks frá Kosovo, Tsjetsjeníu og öðrum fyrrverandi ríkjum Júgóslavíu og Sovétríkjanna. Um leið hefur vanmáttur alþjóðasamfélagsins að bregðast við og refsa þeim sem fremja slík voðaverk á saklausu fólki verið afhjúpaður.

Samningar til varnar mannréttindum.

Í ár er haldið upp á að 50 ár eru liðin frá undirritun Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en mannréttindasáttmálinn hefur verið lagður til grundvallar samningum þjóða í milli til verndar mannréttindum í ófriði sem á friðartímum. Þrátt fyrir ótal alþjóðasamninga, sáttmála og yfirlýsingar þar sem reglur eru m.a. settar til varnar borgurum á stríðshrjáðum svæðum og um bann á framleiðslu og/eða notkun tiltekinna vopna hefur mannréttindabrotum fjölgað í heiminum. Jafnframt hefur alþjóðasamfélaginu orðið æ ljósari skortur á aðferðum til að sporna gegn stríðsglæpum og kalla þá, sem brjóta á alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, til ábyrgðar fyrir dómstólum.

Alþjóðlegur sakamáladómstóll

Frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari, eftir Nürnberg- og Tókýó-réttarhöldin, hafa Sameinuðu þjóðirnar leitað leiða til að koma á stofn alþjóðlegum sakamáladómstóli til að lögsækja einstaklinga sem gerast sekir um alvarlega glæpi á ófriðartímum og refsa þeim. Á það má benda að Alþjóðadómstóllinn í Haag tekur eingöngu á málum er varða samskipti milli ríkja, en tæki til að taka á stríðsglæpum sem framdir eru af einstaklingum hefur skort. Á undanförnum áratugum hafa stríðsdómstólar verið settir á laggirnar til að taka á einstökum málum, eins og t.d. í Rúanda og í fyrrverandi Júgóslavíu, en þeir dómstólar hafa verið settir upp til að taka á þessum tilteknu málum, en hafa ekki möguleika til að taka á mannréttindabrotum sem eiga sér stað annars staðar, né koma í veg fyrir ofbeldi í framtíðinni.

Fyrirhugaður alþjóðasakamáladómstóll verður ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna og er stofnaður til frambúðar. Dómstóllinn getur tekið upp mál með litlum fyrirvara og beint tilmælum til viðkomandi þjóðlanda um að lögsækja stríðsglæpamenn eða að öðrum kosti tekið upp málið að eigin frumkvæði, ef tilmæli um upptöku máls í viðkomandi landi reynast árangurslaus.

Glæpir gegn mannkyni

Alþjóðlegum sakamáladómstól er ætlað að lögsækja einstaklinga sem grunaðir eru um yfirgang, stríðsglæpi, þátttöku í þjóðarmorði eða aðra alvarlega glæpi gegn mannkyni. Til hins síðastnefnda teljast víðtækar og skipulagðar árásir á tiltekinn hóp manna með t.d. morðum, útrýmingu, nauðgunum, kynlífsþrælkun, þröngvuðum þungunum, mannránum eða glæpum vegna aðskilnaðarstefnu. Að mati margra er sáttmálinn talinn jafn mikilvægur og mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna og hefur Kofi Annan, framkvæmdastjóri samtakanna, lýst honum sem stórstígu skrefi til að tryggja mannréttindi og lög og rétt í heiminum.

Fullgilding Rómarsáttmálans

Fulltrúar 160 landa tóku þátt í ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Róm um stofnun alþjóðlegs sakamáladómstóls sem haldin var um miðjan júlí 1998. Ísland undirritaði Rómarsáttmálann í lok ágúst 1998 og var meðal fyrstu ríkja til að undirrita hann. Alls hafa um 90 ríki undirritað sáttmálann, en einungis fjögur lönd hafa fullgilt hann. Stefnt er að því að Ísland fullgildi Rómarsáttmála á vorþingi árið 2000. Til að alþjóðasakamáladómstóllinn geti tekið til starfa þurfa 60 þjóðlönd að staðfesta hann.

Þáttur Alþjóða Rauða krossins

Á undanförnum mánuðum hafa fjölmörg alþjóðleg samtök hvatt þjóðríki heims til að fullgilda sáttmálann hið fyrsta. Þar á meðal er Alþjóða Rauði krossinn sem hefur verið í fararbroddi í baráttunni fyrir að setja alþjóðlegan sakamáladómstól á laggirnar. Það er því viðeigandi að á 75 ára afmæli Rauða kross Íslands sé vakin athygli þessu baráttumáli alþjóðasamtaka Rauða krossins um áratugaskeið fyrir mannréttindum og mannúðarmálum í heiminum um leið og hvatt er til þess að Ísland fulllgildi sáttmálann við fyrsta tækifæri.

Höfundur er alþingismaður.