EFTIR lestur á grein Stefáns Ingólfssonar í DV nýlega getur undirritaður ekki orða bundist um ýmsar fullyrðingar sem þar eru settar fram.

EFTIR lestur á grein Stefáns Ingólfssonar í DV nýlega getur undirritaður ekki orða bundist um ýmsar fullyrðingar sem þar eru settar fram. Ekki þekki ég deili á greinarhöfundi eða hvaða kunnáttu hann hefur í körfubolta, en þær rangfærslur sem þar koma fram um ástand leikmanna og þróun í íslenskum körfubolta eru með þeim hætti að ekki er unnt að láta þeim ósvarað.

Í sjálfu sér er lítið að segja um skoðanir greinarhöfundar á tæknilegri getu leikmanna í dag en þeir sem þekkja eitthvað til þeirra mála gera sér grein fyrir þeim miklu framförum sem orðið hafa á grunntækni íslenskra leikmanna. Ég geri mér enga grein fyrir því hvaða viðmið greinarhöfundur hefur varðandi tæknilegar framfarir.

Árangur yngri landsliða Íslands á þessum áratug hefur vakið athygli á erlendri grundu, og má þar nefna Norðurlandameistaratitil 1992, 9. sæti í Evrópukeppni 1993 (besti árangur Norðurlandaþjóða s.l. 30 ár), silfurverðlaun á Norðurlandamóti drengjalandsliða 1998 og nú í sumar komst unglingalandslið í annað sinn í undanúrslit Evrópukeppninnar. Reyndar er það svo að fulltrúar Íslands erlendis hafa verið spurðir með undrun hvað litla Ísland sé eiginlega að gera í uppbyggingarmálum sínum í dag sem skili svo miklum árangri.

Varðandi uppbyggingu hávaxinna leikmanna má benda greinarhöfundi á að telja upp fjölda slíkra leikmanna hérlendis fyrir áratug og fyrr. Ekki koma mörg nöfn upp í hugann. Í dag leika hins vegar 13 íslenskir leikmenn í Epson-deildinni sem eru 2 metrar eða hærri, og að auki 18 leikmenn á hæðarbilinu 195-200 cm. Þá eru ótaldir hávaxnir íslenskir leikmenn sem nú leika erlendis, þ.á m. tveir "risar" em leika í skólum í Bandaríkjunum, og teljast meðal mestu miðherjaefna sem fram hafa komið á undanförnum árum. Þetta er ekki síst afrakstur reglulegra námskeiða sem haldin hafa verið á vegum KKÍ undanfarin 8 ár. Hér virðist því vera um algert þekkingarleysi greinarhöfundar að ræða.

Sjálfur hef ég komið að námskeiðum hérlendis við uppbyggingu hávaxinna leikmanna, og síðastliðið sumar var brotið í blað í þeim málum með því að hópi slíkra leikmanna var boðið í mánaðarlangar æfingarbúðir á vegum landsliðsins þar sem KKÍ stóð myndarlega að því að reyna að aðstoða við að fá leikmenn lausa úr vinnu án þess að þurfa að þola fjárhagslegt vinnutap. Vissulega eigum við engan Pétur Guðmundsson í dag, en varla er hægt að kenna körfuknattleiksforystunni um að leikmaður af þeirri stærð hefur ekki fæðst á Íslandi undanfarin ár.

Í landsliðshópnum sem valinn var fyrir Evrópukeppni landsliða eru 6 leikmenn 2 metrar eða hærri. Auk þess eru 2 leikmenn sem leika í Bandaríkjunum yfir 2 metrar sem ekki gefa kost á sér vegna náms. Þetta er mikil breyting frá þeim tíma þegar landsliðið hafði aðeins einn eða jafnvel engan leikmann yfir 2 metra.

Ummæli um að stutt sveifluskot feli í sér mælikvarða á hæfileika miðherja segja e.t.v. allt sem segja þarf um þær forsendur sem greinarhöfundur virðist leggja til grundvallar getu miðherja í körfubolta. Í fljótu bragði man ég eftir tveimur frábærum miðherjum sem notuðu sveifluskot, þeim Kareem Abdul Jabbar og Einari Bollasyni. Slík skot sjást t.d. ekki í evrópskum körfuknattleik í dag né heldur í NBA-deildinni. Annar stíll og öflugri hefur tekið við.

Hvað varðar þjálfun í yngri flokkum þá hefur KKÍ lagt á það áherslu á námskeiðum sínum að þjálfarar gefi hávöxnum leikmönnum tækifæri til að leika. Hvernig hver þjálfari stýrir sínu liði er auðvitað á hans ábyrgð. Enn fremur er KKÍ, eitt sérsambanda, með sérreglur í yngri flokkum sem tryggja að allir leikmenn liðsins fái að taka þátt í kappleikjum í Íslandsmóti.

FRIÐRIK INGI RÚNARSSON,

landsliðsþjálfari KKÍ.

Frá Friðrik Inga Rúnarssyni: