INGA Jóna Þórðardóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, segir þau háu tilboð sem bárust í byggingarrétt á lóðum í Grafarholtshverfi vera "afleiðingar af lóðaskortsstefnu R-listans", en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri, segir...

INGA Jóna Þórðardóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, segir þau háu tilboð sem bárust í byggingarrétt á lóðum í Grafarholtshverfi vera "afleiðingar af lóðaskortsstefnu R-listans", en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri, segir það verð sem boðið var hljóta að vera eðlilegt fyrst að markaðurinn meti það svo.

Inga Jóna segir lítið framboð lóða í borginni hafi leitt til hærra fasteignaverðs og þar hafi borgin haft áhrif með því að takmarka framboð á undanförnum misserum þegar eftirspurn hefur verið að aukast.

Hæstu tilboð meira en þrefalt lágmarksverð

Hún telur gagnrýnisvert að gefa húsbyggjendum ekki kost á lóðum nema í gegnum útboð og bendir á að hátt verð í áðurnefndu útboði feli í raun í sér meiri hækkun en komið hafi fram í fréttum. Hæstu tilboð hafi bæði verið meira en þrefalt það lágmarksverð sem gefið var og lágmarksverð hafi auk þess verið að jafnaði 40 til 50% hærra en það verð sem almennt gildi samkvæmt gatnagerðargjöldum.

Inga Jóna segir þetta útboð hljóta að leiða til enn meiri hækkunar á fasteignaverði, viðbúið sé að áhrifanna gæti á öllu höfuðborgarsvæðinu og aðspurð segist hún telja að þau muni koma fljótt í ljós.

"Það sem er gagnrýnisvert er að borgaryfirvöld skuli, á síðustu misserum, hafa leyft sér að takmarka svo framboð af lóðum að þessi staða hafi skapast. Framboð af lóðum verður að vera jafnt og þétt og það er hlutverk yfirvalda að tryggja eðlilegar aðstæður á markaðnum. Það á ekki að búa til skort af þessu tagi og notfæra sér svo ástandið til að fá mikla fjármuni inn í borgarsjóð," segir Inga Jóna.

Ingibjörg Sólrún telur að vel hafi tekist til með áðurnefnt útboð og þessi aðferð sé komin til að vera. Aðspurð um hvort svo há tilboð séu eðlileg segir hún þetta hljóta að vera eðlilegt verð fyrst að markaðurinn meti það svo.

Hefur ekki bein áhrif á fasteignaverð í borginni

Hún bendir á að misræmi í grunnverði gatnagerðargjalda og tilboða í byggingarlóðirnar felist í kostnaðnum sem lagður sé í lóðirnar. Kaupa þurfi landið og skipuleggja það, byggja göngustíga, græn svæði, leiksvæði, skóla, leikskóla og fleira. "Sveitarfélögin eru að úthluta verðmætum og í stað þess að þau séu að taka pólitískar ákvarðanir um hverjir eigi að fá þau er eðlilegt að markaðurinn stjórni verðinu á þeim. Útboðsaðferðin felur þetta í sér."

Ingibjörg Sólrún telur að þetta einstaka útboð muni ekki hafa bein áhrif á íbúðarverð í borginni. "Það eru svo margir þættir sem hafa áhrif á fasteignaverðið í borginni, eins og til dæmis almennt efnahagsástand, kaupgeta fólks og aðgangur að lánsfé." Hún segist telja þetta mál snúast um miklu meira en bara fasteignaverð. "Þetta mál snýst um að sveitarfélög geta ekki keypt land, skipulagt það í lóðir og úthlutað þeim síðan án þess að fá til baka það sem þau hafa tilkostað. Bæði er það óábyrg meðferð á skattfé og einnig mismunun í úthlutun verðmæta," segir Ingibjörg Sólrún.