Ólafur Reynir Guðmundsson leikur á píanó á tónleikum í Hömrum á Ísafirði í dag.
Ólafur Reynir Guðmundsson leikur á píanó á tónleikum í Hömrum á Ísafirði í dag.
PÍANÓLEIKARINN og lögfræðingurinn Ólafur Reynir Guðmundsson leikur verk eftir Bach, Chopin og Rachmaninov á tónleikum í Hömrum, nýjum tónleikasal Tónlistarskólans á Ísafirði í dag, laugardag, kl. 17.

PÍANÓLEIKARINN og lögfræðingurinn Ólafur Reynir Guðmundsson leikur verk eftir Bach, Chopin og Rachmaninov á tónleikum í Hömrum, nýjum tónleikasal Tónlistarskólans á Ísafirði í dag, laugardag, kl. 17. Þar kemur einnig fram Beata Joó píanóleikari, þær Herdís Anna Jónasdóttir og Þórunn Arna Kristjánsdóttir sem munu syngja lög eftir Jónas Tómasson. Þá syngur séra Skúli Ólafsson ásamt fleirum. Allur ágóði af tónleikunum rennur til styrktar flygilsjóði Tónlistarskólans á Ísafirði.

Ólafur hefur starfað sem fulltrúi sýslumanns á Ísafirði frá því í mars síðastliðnum en hverfur nú brátt til starfa á öðrum vettvangi, nánar tiltekið hjá City Bank í Amsterdam. Með tónleikunum segist hann vilja kveðja og þakka fyrir sig, auk þess sem hann vilji sýna í verki virðingu fyrir því mikla framtaki sem bygging hins nýja tónleikasalar sé. "Það var mjög dýr framkvæmd og í raun afar merkilegt framtak," segir hann.

Ólafur Reynir, sem er aðkomumaður á Ísafirði, kveðst hafa séð það strax og hann kom þangað fyrir tæpu ári að þar væri mikið og blómlegt tónlistarlíf. "Ég fékk þá hugdettu í júní að halda tónleika, sem ég og gerði. Þeir voru vel sóttir og gengu ágætlega," segir hann, en þeir tónleikar voru einnig styrktartónleikar vegna flygilkaupanna. "Mér fannst tilvalið að sýna lit og leggja mitt af mörkum," segir Ólafur, sem endurtekur leikinn á morgun, ásamt fleiri tónlistarmönnum á Ísafirði.

Rachmaninov í uppáhaldi

Á efnisskránni eru m.a. tvær prelúdíur eftir Bach. Þá munu þau Ólafur og Beata Joó leika saman annan kafla píanókonserts nr. 1 í e-moll eftir Chopin fyrir tvö píanó.

Rachmaninov er í miklu uppáhaldi hjá Ólafi og mun hann m.a. leika fimm af prelúdíum tónskáldsins, auk þess sem hann og Beata munu leika saman annan kafla í píanókonsert nr. 2 eftir Rachmaninov.

Ólafur hefur leikið á píanó allt frá fimm ára aldri og þó að hann hafi jafnframt menntað sig til annarra starfa hefur hann lagt á það áherslu að halda við því sem hann hefur lært í tónlistinni. "Annað væri sóun," segir Ólafur, sem stundaði nám við Nýja tónlistarskólann í Reykjavík og síðar framhaldsnám við Tónlistarháskóla Vínarborgar, ásamt lögfræðinámi.