Tvisvar í viku, hálftíma í senn, mynda börnin hring og hlusta með andakt á enskukennarann sinn sem reynir að leiða þau fyrstu skrefin í þessu ráðandi tungumáli heims.
Tvisvar í viku, hálftíma í senn, mynda börnin hring og hlusta með andakt á enskukennarann sinn sem reynir að leiða þau fyrstu skrefin í þessu ráðandi tungumáli heims.
SÍÐUSTU ár hefur hálfgert enskuæði verið að grípa um sig á meðal Spánverja. Til marks um það er mikill fjöldi enskuskóla sem hafa sprottið upp eins og gorkúlur með gylliboð á götum úti og í helstu fjölmiðlum landsins.

SÍÐUSTU ár hefur hálfgert enskuæði verið að grípa um sig á meðal Spánverja. Til marks um það er mikill fjöldi enskuskóla sem hafa sprottið upp eins og gorkúlur með gylliboð á götum úti og í helstu fjölmiðlum landsins. Meiri hluti nemenda er ungt fólk og fólk sem sækir á vinnumarkaðinn. Jafnvel leikskólarnir hafa brugðist við þessari þróun og þar eru dæmi um 18 mánaða enskunema.

Spánverjar eru þekktir fyrir að geta lítið bjargað sér á enskri tungu; mörgum ferðalöngum sem heimsækja Spán til mestu armæðu. Það kemur svo sem ekki á óvart að þeir eigi erfitt með að bjarga sér á þessu næstútbreiddasta tungumáli heims, þar sem Spánverjar hafa hingað til ekki þurft að nota enskuna mikið í daglegum samskiptum. Til dæmis hefur lengi verið lenska að færa allt erlent efni yfir á spænska tungu, eins og til dæmis bækur, sjónvarpsefni og bíómyndir. Síðustu ár hefur þetta þó smám saman verið að breytast. Enskan er nú fyrsta erlenda tungumálið sem þeir læra, í stað frönsku áður, og það færist sífellt í aukana að fyrirtæki á Spáni sækist eftir að ráða fólk sem talar ensku, enda enskan hið alþjóðlega viðskiptatungumál. Spánverjar ætla sér ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur í þessum efnum og láta það duga að byrja að kenna börnum ensku við 8 ára aldur, eins og skylda er, heldur er orðið algengt að kenna ensku í leikskólum.

Carmen Alemany sem rekur leikskólann Bressol í Barcelona, fyrir börn allt að 3 ára aldri, sá snemma hvert stefndi í enskuáhuga þjóðarinnar og hefur í nokkur ár boðið upp á enskukennslu þar sem þau yngstu eru rétt 18 mánaða gömul. Tvisvar í viku, hálftíma í senn, mynda krakkarnir hring og hlusta með andakt á enskukennarann sinn sem reynir að leiða þau fyrstu skrefin í þessu ráðandi tungumáli heims. Ekki var annað að sjá en að þau hefðu gaman af látbragðsleik enskukennarans þar sem hún fetti sig og bretti í frásögn sinni af ævintýri um litla græna froskinn. Þegar kom að því að hvert og eitt átti að taka sér spjald og setja það fyrir aftan bak, settu flest hina höndina fyrir aftan bak. Það kom svo sem ekki á óvart að þau skildu ekki allt sem fram fór. Þegar kom hins vegar að því að hlusta á tónlist kom í ljós hvað þeim fannst skemmtilegast að gera; að dilla sér frjálslega í takt. Það var semsagt ekki annað að sjá en krakkarnir hefðu gaman af þessu. Carmen segir það afar mikilvægt að byrja snemma að kenna börnunum jafn mikilvægt tungumál og enskuna, þó ekki sé nema þau fái smá tilfinningu fyrir málinu, sem skili sér örugglega seinna meir. Hún segir að það sé allur gangur á því hvort leikskólar kenni börnunum ensku, þar sem enska er ekki skylda fyrr en við 8 ára aldur. Hún segist ekki vita um marga leikskóla sem kenni börnum undir 2 ára ensku, en síðustu ár hafi þó tilhneigingin verið sú að færa aldurinn alltaf neðar og neðar. Það geti þó skipt máli hvort um sé að ræða einkaskóla eða opinberan skóla, en samkvæmt opinberum tölum lærðu 6-13% krakka frá 4 til 8 ára ensku í fyrravetur á móti 46-47% sem voru í einkaskóla.

Eftir að einræðisherrann Frankó féll frá 1975 og enn frekar eftir að Spánn gekk í Evrópusambandið 1986 hefur landið smám saman verið að rífa sig upp efnahagslega og menningarlega og losa sig við þá gömlu ímynd, sem mótaðist þegar Spánn var sem einangraðast frá umheiminum; mynd af gamalli og hrukkóttri konu sem leiðir asna um illa farinn sveitaveg. Á nýlegri ferð um gömlu hvítu sveitaþorpin á Suður-Spáni var hins vegar í stað gömlu konunnar komin gömul kona með farsíma. Skyldi hún hafa verið að tala ensku?