BÆJARFULLTRÚAR Samfylkingarinnar í Hafnarfirði hafa kært afgreiðslu fjárhagsáætlunar bæjarins fyrir árið 2000 til félagsmálaráðherra.

BÆJARFULLTRÚAR Samfylkingarinnar í Hafnarfirði hafa kært afgreiðslu fjárhagsáætlunar bæjarins fyrir árið 2000 til félagsmálaráðherra. Bæjarfulltrúarnir byggja kæru sína á viðbrögðum ráðuneytisins við fyrirspurn er þeir sendu því í lok nóvembermánaðar, en þar var m.a. spurt um réttmæti þess að hvergi skyldi hafa verið getið um kostnað vegna fyrirhugaðra einkaframkvæmda í bænum í fjárhagsáætluninni.

Í kærunni segir: "Það er gjörsamlega ókleift að taka afstöðu til veigamikilla atriða varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir bæjarins meðan engin fjármalaleg úttekt liggur fyrir varðandi þær. Þau rök meirihlutans, að vísa til þess að kostnaðurinn við þessar fyrirhuguðu einkaframkvæmdir komi fram í rekstri þegar fram líða stundir, teljum við engan veginn fullnægjandi til að taka efnislega afstöðu til þeirra hugmynda sem liggja að baki fyrirhuguðum einkaframkvæmdum."

Sérfræðingur geri úttekt á fjárskuldbindingum

Minnihlutinn fer fram á það við ráðuneytið að það ógildi afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar, sem var samþykkt á þriðjudaginn og gerir kröfu um úttekt sérfræðings á því hvað fyrirhugaðar fjárskuldbindingar hafi í för með sér fyrir fjárhagsgetu bæjarins til lengri tíma. Að þessu loknu vill minnihlutinn að fjárhagsáætlun bæjarins verði tekin upp að nýju til umfjöllunar og afgreiðslu í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Ástæðan fyrir því að minnihlutinn taldi ótækt og ólöglegt að afgreiða fjárhagsáætlunina er einkum tvíþætt. "Í fyrsta lagi er hvergi gerð grein fyrir þeim fjárhagslegu skuldbindingum sem meirihluti bæjarstjórnar hyggst setja bæjarfélagið í með svokallaðri einkaframkvæmd í fyrirliggjandi tillögum til fjárhagsáætlunar.

Fjárfesting nálægt 40% af skatttekjum

Í öðru lagi er ljóst að að fjárfesting á vegum bæjarsjóðs á næsta ári verður nálægt 40% af skatttekjum bæjarsjóða séu metnar inn fyrirhugaðar fjárfestingar í formi einkaframkvæmdar. Án þeirra er hlutfallið 24,57%. Það vantar inn í byggingu tveggja fjögurra deilda leikskóla og upphaf framkvæmda við tvo grunnskóla. Ekki er ólíklegt að fjárskuldbinding bæjarsjóðs vegna þessara framkvæmda á næsta ári nemi um það bil 500 milljónum króna. Það er því augljóst að fjárfesting bæjarfélagsins á næsta ári fer langt umfram fjórðung af tekjum bæjarsjóðs.

Við gerum okkur fyllilega grein fyrir að ýmsir þættir sem lúta að svokölluðum einkaframkvæmdum eru óljósir. Eins og fram kemur í tillögum okkar leggjum við til að fyrirhugaðar einkaframkvæmdir verði gjaldfærðar til að byrja með ásamt skýringum, en síðan verði þær færðar inn í reikninga bæjarsóðs eftir þeim reglum sem settar verða."

Gagnrýnir rök- semdafærslu Sam- fylkingarinnar

Valgerður Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og forseti bæjarstjórnar, sagðist ekki skilja röksemdafærslu bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar í þessu máli, enda væri fjárhagsáætlunin löglega framsett.

"Við erum ekki að fara af stað með fjárhagsáætlun sem við vitum síðan að við getum ekki staðið við," sagði Valgerður. "Bókhaldið hér er fært á sama hátt og hjá ríkinu og ríkið hefur farið út í einkaframkvæmdir."

Að sögn Valgerðar er ekki hægt að reikna inn í fjárhagsáætlun kostnað sem ekki liggur fyrir. Hún sagði að einkaframkvæmdirnar sem fyrirhugaðar væru væru einfaldlega ekki komnar það langt að kostnaður bæjarins vegna þeirra lægi fyrir.

Valgerður sagðist vilja vekja athygli á því að á bæjarstjórnarfundinum á þriðjudaginn, þar sem fjárhagsáætlunin hefði verði samþykkt, hefði einnig verið samþykkt tillaga um það að láta athuga hvort væri hagkvæmara að fara út í einkaframkvæmdir eða hefðbundnar framkvæmdir. Hún sagði að bæjarstarfsmenn myndu kanna þetta og að á grundvelli niðurstaðna þeirrar könnunar myndi bæjarstjórnin ákveða hvort einkaframkvæmdarleiðin yrði farin eða ekki.