RÍKISSTJÓRN Nýfundnalands hefur ákveðið að aflétta ekki skilyrði um 15% lágmarkseignaraðild heimamanna að sjávarútvegsfyrirtækinu Fishery Products International á Nýfundnalandi á núverandi þingi.

RÍKISSTJÓRN Nýfundnalands hefur ákveðið að aflétta ekki skilyrði um 15% lágmarkseignaraðild heimamanna að sjávarútvegsfyrirtækinu Fishery Products International á Nýfundnalandi á núverandi þingi. Vegna þess verður ekkert úr tilboði NEOS-samsteypunnar um kaup á öllu hlutafé fyrirtækisins að upphæð um 7 milljarðar króna samkvæmt netútgáfu kanadíska blaðsins Ottawa Citizen.

Stjórnvöld á Nýfundnalandi hafa þó komið þeim skilaboðum til FPI, það geti komið til þess síðar að aflétta umræddu skilyrði, komi um það tillaga frá FPI og ef mat stjórnvalda yrði að það væri hagur íbúa landsins að aflétta ákvæðinu og mat fyrirtækisins yrði, að það væri ótvíræður hagur eigenda þess.

NEOS er sameiginlegt félag þriggja fyrirtækja í sjávarútvegi, Clearwater Fine Foods á Nova Scotia, Barry Group á Nýfundnalandi og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Hlutur SH er 20%. Róbert Guðfinnsson, stjórnarformaður SH, var staddur í Svíþjóð, þegar Morgunblaði náði tali af honum í gær. Hann sagðist, ekki vilja tjá sig um málið, enda hefði hann enga vitneskju um það að ríkisstjórn Nýfundnalands hefði hafnað lagabreytingunni.

Haft er eftir fulltrúa NEOS frá Clearwater í kanadískum fjölmiðlum, að ljóst sé að lagabreytingin sé grundvöllur þess að boðið var í Fishery Products. Þar sem hún nái ekki fram að ganga, sé grundvöllurinn brostinn. Hann segir það vonbrigði að markmið NEOS hafi ekki náð fram að gangi, því yfirtakan á FPI, hefði verið góður kostur fyrir núverandi hluthafa, fyrir þær byggðir sem FPI starfar í og fyrir sjávarútveginn á Nýfundnalandi í heild.

Á netútgáfu kanadíska blaðsins Ottawa Citizen, segir að fulltrúum NEOS hafi mistekizt að vinna markmiði sínu fylgi. Gagnrýnendur tilboðsins hafi gert athugasemdir við það, að Barry Group, sem þegar hefur mikil ítök í sjávarútvegi á Nýfundnalandi, myndi að lokinni yfirtöku á FPI ráða, beint eða óbeint, yfir öllum veiðum og vinnslu á rækju og stórum hluta veiða og vinnslu á krabba og þorski.

Miklar áætlanir um uppbyggingu

Meðal áætlana NEOS var að verja 500 milljónum króna til að reisa verksmiðju til að vinna iðnaðar- og lyfjaafurðir úr krabba- og rækjuskel, að hafa frumkvæði að stofnun fyrirtækis til að stunda viðgerðir á minni skipum og hefja kaup á sjófrystum fiski af erlendum fiskiskipum til að auka vinnslu í frystihúsum sínum. Ennfremur var ætlunin að auka veiðar á vannýttum karfastofnum, auka rækjuframleiðslu og fjárfesta í nýjasta tæknibúnaði til krabbavinnslu.