FJÁRMÁLARÁÐHERRA hefur lagt fram á Alþingi frumvarp sem rýmkar heimildir lífeyrissjóðanna til fjárfestinga.

FJÁRMÁLARÁÐHERRA hefur lagt fram á Alþingi frumvarp sem rýmkar heimildir lífeyrissjóðanna til fjárfestinga. Verði frumvarpið samþykkt fá lífeyrissjóðirnir auknar heimildir til að fjárfesta í skuldabréfum, hlutabréfum, erlendum gjaldmiðlum og óskráðum verðbréfum.

Ekki eru nema tvö ár síðan ný heildarlöggjöf var sett um starfsemi lífeyrissjóða. Í lögunum voru heimildir lífeyrissjóðanna til fjárfestinga rýmkaðar talsvert frá því sem áður var. Við lagasetninguna var leitast við að veita sjóðunum svigrúm til að ná eins góðri ávöxtun og kostur var á hverjum tíma, en jafnframt var reynt að tryggja eðlilega áhættu þeirra fjármuna sem sjóðunum er trúað fyrir.

Í greinargerð með frumvarpi fjármálaráðherra segir að nauðsynlegt sé að setja fjárfestingarheimildum lífeyrissjóðanna nokkrar skorður. Núverandi reglur séu hins vegar fallnar til að draga úr möguleikum lífeyrissjóða til að nýta sér þá fjárfestingakosti sem þeir telja vænlegasta.

Geta keypt í óskráðum erlendum verðbréfum

Frumvarpið gerir ráð fyrir að heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í skráðum skuldabréfum bæjar- og sveitarfélaga, skuldabréfum og víxlum banka, sparisjóða og annarra lánastofnana sem lúta eftirliti opinbers eftirlitsaðila, hlutabréfum fyrirtækja og öðrum verðbréfum verði hækkuð úr 35% í 50%. Í öðru lagi er lagt til að heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í erlendum gjaldmiðlum verði aukin úr 40% af hreinni eign sjóðanna í 50%. Í þriðja lagi er lagt til að heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í óskráðum verðbréfum nái jafnt til verðbréfa sem gefin eru út af innlendum og erlendum aðilum en ekki einungis innlendum eins og nú er.