VIÐRÆÐUR vegna endurnýjunar kjarasamninga eru hafnar á almenna vinnumarkaðinum. Fulltrúar Rafiðnaðarsambandsins og Samtaka atvinnulífsins komu saman til fyrsta samningafundarins 1. desember sl. og lögðu rafiðnaðarmenn þar fram kröfugerð sína.

VIÐRÆÐUR vegna endurnýjunar kjarasamninga eru hafnar á almenna vinnumarkaðinum. Fulltrúar Rafiðnaðarsambandsins og Samtaka atvinnulífsins komu saman til fyrsta samningafundarins 1. desember sl. og lögðu rafiðnaðarmenn þar fram kröfugerð sína. Þá hittust forystumenn Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins á fyrsta formlega samningafundinum síðastliðinn þriðjudag. Gildandi samningar iðnaðarmannasambandanna og atvinnurekenda renna út 15. febrúar á næsta ári.

Samningar losni fari verðbólga yfir 6%

Helstu kröfur Rafiðnaðarsambandsins eru að samið verði til tveggja ára. Upphafshækkun launa verði 8% og laun hækki svo um 4% 1. janúar árið 2001 og aftur um 4% 1. janúar 2002. Í kröfugerð Rafiðnaðarsambandsins er gert ráð fyrir að fari verðbólga upp fyrir 6% á ársgrundvelli verði samningurinn laus og jafnframt ef samið verði um umtalsvert meiri launahækkanir hjá öðrum launahópum. M.a. atriða í kröfugerð RSÍ er að orlof verði 30 dagar, 24 að sumri og 6 dagar að vetri. Einnig er þess krafist að desember- og orlofsuppbót verði ígildi tveggja vikna launa.

Rafiðnaðarmenn stefna að því að ljúka frágangi kröfugerðar gagnvart fjármálaráðuneytinu og Reykjavíkurborg í næstu viku og í framhaldi af því verði haldinn samningafundur með fulltrúum ríkis og Reykjavíkurborgar, þar sem kröfugerðin verður lögð fram og gengið frá viðræðuáætlun. Í viðræðuáætlun RSÍ og viðsemjenda þess er gert ráð fyrir að viðræðum um almennar breytingar á kjarasamningnum verði lokið fyrir miðjan janúar og þá verði teknar upp viðræður um launaliði. Hafi samningar ekki komist á eða náðst umtalsverður árangur í viðræðunum 1. febrúar verði viðræðum vísað til meðferðar sáttasemjara.

Samið til 2-3 ára og skýr opnunarákvæði

Í kröfugerð Samiðnar er sett fram það samningsmarkmið að samið verði um almennar launabreytingar og önnur réttindi sem skili 4-5% kaupmáttaraukningu ráðstöfunartekna á ári að meðaltali og lægstu taxtarnir fái sérstaka hækkun. Samiðn vill semja til 2-3 ára með skýrum opnunarákvæðum, til dæmis rauðum strikum. Þá er sett fram sú krafa að samið verði um nýtt kauptaxtakerfi sem nái yfir allt samningssviðið og tryggi öllum hópum innan sambandsins lágmarkslaun.

"Markmið með nýju taxtakerfi er að umsamdir lágmarkskauptaxtar verði sem næst 80% af meðallaunum iðnaðarmanna og hlutföll milli aðstoðarmanna og iðnaðarmanna verði á bilinu 20-25%," segir í kröfugerð Samiðnar. Einnig er m.a. farið fram á endurskoðun vinnustaðasamninga og að samið verði um nýtt fyrirkomulag á fæðingarorlofi sem lengt verði í 12 mánuði í áföngum, dagpeningar verði hækkaðir og þeir verði hlutfall af launum foreldra.

Þá krefst Samiðn þess að lífeyrisréttur launamanna verði jafnaður og samið verði um viðbótarframlag frá atvinnurekendum. Rétturinn verði jafnaður í áföngum. Fyrsti áfanginn verði við undirritun kjarasamnings og þá komi 3% mótframlag atvinnurekenda á móti 2% framlagi launamanna í séreignadeild.

Stíf fundahöld í næstu viku

Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, sagði að gert væri ráð fyrir nokkuð stífum fundahöldum með atvinnurekendum í næstu viku en í viðræðuáætlun Samiðnar við Samtök atvinnulífsins sé þó ekki gert ráð fyrir að viðræður um launaliði samninga hefjist fyrr en eftir áramót. Er að því stefnt að samningum verði lokið áður en gildandi samningar renna út um miðjan febrúar næstkomandi.

Samiðn mun einnig eiga viðræður við samninganefndir Reykjavíkurborgar og ríkisins í næstu viku vegna endurnýjunar kjarasamninga við hið opinbera.