HÆSTIRÉTTUR hefur sýknað íslenska ríkið af skaðabótakröfu manns, sem var handtekinn í Kömbum við Hellisheiði snemma desembermorguns árið 1996 og haldið á lögreglustöðinni á Selfossi í tæpa þrjá tíma.

HÆSTIRÉTTUR hefur sýknað íslenska ríkið af skaðabótakröfu manns, sem var handtekinn í Kömbum við Hellisheiði snemma desembermorguns árið 1996 og haldið á lögreglustöðinni á Selfossi í tæpa þrjá tíma. Maðurinn sagði handtökuna hafa verið ólögmæta, en Hæstiréttur sagði lögreglu hafa haft réttmæta ástæðu til að óttast að hann hefði í huga að fylgja eftir hótunum sem hann hafði haft í frammi um að koma í veg fyrir ferð fyrrverandi eiginkonu sinnar og dóttur af landi brott. Hefði því mátt telja nauðsynlegt að handtaka hann umræddan morgun til að koma í veg fyrir að hann fremdi afbrot. Héraðsdómur hafði áður dæmt að ríkið skyldi greiða manninum 40 þúsund krónur í skaðabætur.

Áður en til handtöku og yfirheyrslu mannsins kom höfðu lögreglu borist frásagnir um ýmiss konar hótanir af hálfu hans. Daginn fyrir handtökuna skýrðu lögmaður fyrrverandi eiginkonu hans og félagsmálastjórinn í Hveragerði lögregluyfirvöldum frá því að hann hefði m.a. hótað að sprengja í loft upp flugvél þá, sem konan hugðist ferðast með. Lögmaðurinn taldi ljóst að öryggi konunnar og barnsins væri hætta búin vegna hótana mannsins. Þá var lagt fyrir dóminn bréf mannsins til Lögmannafélags Íslands, þar sem hann skýrði sjálfur frá líflátshótunum sínum í garð lögmannsins.

Fyrir rétti sagði maðurinn hins vegar, að þegar hann hafi verið handtekinn hafi hann verið á leiðinni til Keflavíkur, ekki til að sprengja flugvél í loft upp, heldur til að reyna að láta dóttur sína sjá sig og að ná henni út af flugvellinum meðan flugvélin færi í loftið. Hæstiréttur segir að atferli sem þetta hafi getað bakað manninum refsiábyrgð samkvæmt hegningarlögum. Engar vísbendingar væru í gögnum málsins um að handtakan hefði verið framkvæmd á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt og því væru ekki talin uppfyllt skilyrði laga til greiðslu bóta vegna handtökunnar.