HER Júgóslavíu féllst í gær á að opna að nýju aðalflugvöll sambandslýðveldisins Svartfjallalands sem herinn yfirtók á miðvikudag.

HER Júgóslavíu féllst í gær á að opna að nýju aðalflugvöll sambandslýðveldisins Svartfjallalands sem herinn yfirtók á miðvikudag. Herbifreiðar tóku sér stöðu á aðalflugbraut Podgorcia-flugvallarins um miðjan dag á miðvikudag og lá allt flug niðri í um 12 klukkustundir. Flugvöllurinn þjónar bæði farþegaflugi og er herflugvöllur fyrir flugher Júgóslavíu, sambandsríki Serbíu og Svartfjallalands. Samgönguráðherra Svartfjallalands, Jusuf Kalamperovic, tilkynnti í gærmorgun að hermenn hefðu yfirgefið þann hluta flugvallarins sem þjónar farþegaflugi og að yfirvöld í Belgrad hefðu heimilað umferð um völlinn að nýju. Að sögn ráðherrans gáfu júgóslavnesk stjórnvöld enga skýringu á aðgerðum hersins.

Litið er á atvikið sem nýjasta dæmið um versnandi sambúð lýðveldanna tveggja sem mynda sambandsríkið Júgóslavíu. Stjórnvöld í Svartfjallalandi hafa ítrekað gagnrýnt stefnu Slobodans Milosevic, forseta Júgóslavíu, nú síðast í tengslum við átökin í Kosovo-héraði. Þau hafa hallað sér sífellt meir að Vesturlöndum síðustu misserin og jafnvel hótað að slíta sambandinu við Serbíu og stofna sjálfstætt ríki. Slík áform vekja með mörgum ótta um að nýtt stríð geti brotist út á Balkanskaga því talið er víst að Milosevic muni ekki geta fallist á sundurlimun Júgóslavíu.

Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að Bandaríkin hefðu áhyggjur af því sem væri að gerast í Svartfjallalandi og ítrekaði stuðning þeirra við stefnu stjórnvalda þar. Framkvæmdastjóri NATO, Robinson lávarður, varaði Milosevic við því að beita hervaldi gegn Svartfellingum. "Milosevic forseti ætti ekki að reyna að efna til stríðs í upphafi 21. aldarinnar. Við munum ekki líða það og fylgjumst af mikilli athygli með framvindu mála í Svartfjallalandi," sagði Robertson.

Deilt um yfirstjórn flugvallarins

Talið er að deila um yfirstjórn þess hluta vallarins sem þjónar flugher Júgóslavíu hafi legið að baki yfirtökunni. Svartfellingar áttu samkvæmt samkomulagi við stjórnvöld í Belgrad að taka við yfirstjórn beggja flugvalla landsins í gær og má túlka yfirtöku hersins sem mótmæli við þeirri ráðstöfun. Einnig er hermt að deilt hafi verið um þyrlupalla sem stjórnvöld í Svartfjallalandi hafa unnið við að byggja fyrir lögreglu sambandslýðveldisins. Her Júgóslavíu hefur verið andvígur byggingu pallanna og setti á miðvikudagskvöld upp vélbyssuhreiður við þá.