STJÓRNVÖLD í Bandaríkjunum tilkynntu í gær að faðir sex ára kúbversks drengs, sem Kúbustjórn vill að verði skilað heim, gæti gætt hagsmuna sinna fyrir forræðisrétti í Bandaríkjunum.

STJÓRNVÖLD í Bandaríkjunum tilkynntu í gær að faðir sex ára kúbversks drengs, sem Kúbustjórn vill að verði skilað heim, gæti gætt hagsmuna sinna fyrir forræðisrétti í Bandaríkjunum. Fidel Castro Kúbuforseti hafnaði því strax og boðaði í gær til mikilla mótmæla gegn Bandaríkjunum.

Börn úr herskóla í Havana taka hér þátt í mótmælaaðgerðum til að krefjast þess, að drengurinn, Elian Gonzalez, verði sendur aftur til Kúbu. Hann bjargaðist á bílslöngu en móðir hans og stjúpfaðir drukknuðu ásamt fleira fólki er bát sem þau voru á hvolfdi úti fyrir ströndum Flórída í síðasta mánuði. Hefur Elian síðan verið hjá ættingjum sínum í Miami, sem segja að hann vilji vera um kyrrt, en faðir hans krefst þess að fá hann til sín á Kúbu enda hafi hann verið fluttur úr landi án hans samþykkis.

Bandarísk yfirvöld vilja að forræðisréttur á Flórída skeri úr um málið og í gær var föður Elians boðið að tala sínu máli fyrir réttinum. Castro hafnaði því fyrir hans hönd nema bandarísk yfirvöld ákvæðu strax hvenær drengnum yrði skilað.

Boðaði Castro til mikils mótmælafundar í Havana og var búist við að allt að 300.000 manns myndu mæta til að krefjast þess að Elian yrði skilað.