Jóhannes Kristjánsson er nú útskrifaður af Sjúkrahúsi Reykjavíkur eftir langa sjúkrahúslegu.
Jóhannes Kristjánsson er nú útskrifaður af Sjúkrahúsi Reykjavíkur eftir langa sjúkrahúslegu.
"ÉG hvarf af yfirborði jarðar, sem þótti skrýtið og því spunnust skemmtilegar sögur um hvarf mitt," segir Jóhannes Kristjánsson, skemmtikraftur og eftirherma, en lítið hefur farið fyrir honum síðan í lok sumars.

"ÉG hvarf af yfirborði jarðar, sem þótti skrýtið og því spunnust skemmtilegar sögur um hvarf mitt," segir Jóhannes Kristjánsson, skemmtikraftur og eftirherma, en lítið hefur farið fyrir honum síðan í lok sumars. Sögusagnir voru fljótt komnar á kreik og Jóhannes sagður með camphylobakter-sýkingu, eyðni og eins var hann sagður á Litla-Hrauni vegna fíkniefnamáls.

Hið rétta er að Jóhannes hefur sl. fjóra mánuði dvalið á Sjúkrahúsi Reykjavíkur með lungnasýkingu og var ástand hans á stundum talið mjög alvarlegt. Það var í byrjun febrúarmánaðar að Jóhannes fékk kransæðastíflu og í framhaldi sjálfsofnæmi sem honum gekk erfiðlega að losna við. Sjálfsofnæmi felur í sér að ónæmiskerfið ver ekki líkamann gegn sýkingum, heldur á það til að ráðast gegn öðrum kerfum líkamans.

"Mér fór lítið fram. Síðan umgekkst ég fólk sem var mikið kvefað og fékk sýkingu út frá því." Í vor var Jóhannes síðan orðinn slæmur í maga og lifur, en leitaði ekki læknis þar sem hann taldi magakrankleikann óskyldan fyrri veikindum sínum.

Skipað að leggjast á spítala

Það var síðan ekki fyrr en um verslunarmannahelgina, þegar Jóhannes var mikið á ferðinni milli landshluta að skemmta, að hann fór að hafa áhyggjur. "Þá voru hendur mínar og fætur ísköld, því hjartað dældi bara blóði til nauðsynlegustu líffæra. Þá varð mér um og ó og hringdi í Jón Högnason hjartalækni sem skipaði mér að koma mér inn á spítala."

Í kjölfarið fylgdi erfitt tímabil því illa gekk að greina veikindi Jóhannesar og var það ekki fyrr en hann hafði dvalið á spítalanum í einn og hálfan mánuð að fyrir lá að hann var með lungnasýkingu sem fylgdi mikill gröftur. "Það var erfitt að vita ekkert," segir Jóhannes.

Endalausar rannsóknir fylgdu og um vikutíma var Jóhannes í einangrun þar sem talið var að hann kynni að vera með berkla. "En þeir gerðu ekkert nema þeir vissu hvað þeir voru að gera og það kalla ég góða lækna," segir Jóhannes og er ánægður með læknaþjónustu hjartadeildarinnar.

Sýking eins og sú sem hrjáði Jóhannes er mjög sjaldgæf og segir hann það ástæðu þess hve langan tíma sjúkdómsgreiningin tók. "Það vildi bara svo til að ég lenti hjá góðum læknum," bætir hann við og kveður þá ekki hafa gefist upp.

Við og við hresstist Jóhannes á spítalanum og hljóp síðan í sama farið aftur. Hann kveðst t.d. muna lítið eftir september og október þar sem hann hafi lengst af legið í hitamóki. "Enda eru þetta ekki það merkilegir mánuðir að ég sakni þeirra," segir hann og kímir.

Jóhannes kveðst hafa verið fljótur að ná sér þegar fyrir lá hvað amaði að honum. Hann er þó ekki kominn með fullan lík-amsstyrk eftir nærri fjögurrra mánaða sjúkrahúslegu. "Ég er vanur göngumaður, en allt tekur þetta sinn tíma," segir hann.

Haustið er venjulega sá tími þar sem Jóhannes hefur komið fram á fjölmörgum skemmtunum og voru sögurnar fljótar á kreik, þegar ekkert sást til Jóhannesar og hann afboðaði hverja skemmtunina á fætur annarri.

"Ég átti að skemmta víða í haust, menn voru alltaf að hringja í mig og ég að afboða án þess að segja hvað væri að mér. Þannig að það hlaut að vera eitthvað grunsamlegt á ferðinni," segir Jóhannes. "Fyrst héldu menn að ég væri með camphylobakter-sýkingu, síðan fréttist af mér í einangrunarklefa á spítala og þá var ég kominn með lokastig af eyðni. Eftir það varð það bara ekkert annað en gæsluvarðhald vegna fíkniefnamála. Ég fékk alla flóruna og hafði gaman af," segir Jóhannes og hlær.

Um vika er síðan Jóhannes útskrifaðist af Sjúkrahúsi Reykjavíkur og kemur hann fram í fyrsta skipti eftir þessa löngu legu í dag á 110 ára afmæli Trésmíðafélags Reykjavíkur. Hann kveður svolítið erfitt að byrja eftir svo langt hlé, en segir þá tilfinningu hverfa um leið og hann standi á sviðinu á ný. Einhverjum læknum kunni síðan að bregða fyrir meðal þeirra hlutverka sem hann bregður sér í. "Læknarnir eru komnir inn í hausinn á mér," útskýrir hann og bætir síðan við: "Það er alltaf verið að bölva þessum læknum, en ég bölva ekki einum einasta lækni á mínum gangi á B-7."