[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Beth Heke (Rena Owen) yfirgefur eiginmann sinn, Jake (Temuera Morrison), og flýr óvissuna, ofbeldið og hatrið. Hún flyst í rólegt og öruggt millistéttarumhverfi, víðsfjarri hinni ofsafengnu veröld Jakes. Jake er hins vegar við sama heygarðshornið.

Beth Heke (Rena Owen) yfirgefur eiginmann sinn, Jake (Temuera Morrison), og flýr óvissuna, ofbeldið og hatrið. Hún flyst í rólegt og öruggt millistéttarumhverfi, víðsfjarri hinni ofsafengnu veröld Jakes.

Jake er hins vegar við sama heygarðshornið. Hann hefur að vísu fundið nýja konu en það er tímaspursmál hvenær hún yfirgefur hann. Hann sækir McClutchy-krána sem fyrr og slæst við alla þá sem honum mislíkar við. Hann er einmitt í slíkum ham þegar elsti sonur hans er myrtur í glæpaklíkustríði. Þegar Jake fer í jarðarförina lendir hann í deilum við yngri son sinn, en Beth vill ekkert vita af sínum gamla eiginmanni.

Heimur Jacks hrynur, vinir hans og félagar verða fráhverfir honum og honum er bannaður aðgangur að kránni sinni en á meðan er yngri sonurinn staðráðinn í að leita hefnda.

Þannig er í stuttu máli söguþráðurinn í nýsjálensku myndinni What Becomes of the "Broken Hearted?", sem er sjálfstætt framhald hinnar vinsælu myndar Eitt sinn stríðsmenn eða "Once Were Warriors", er sýnd var hér á landi fyrir fimm árum. Sömu aðilar og gerðu fyrri myndina standa á bak við framleiðslu "Broken Hearted"; rithöfundurinn Alan Duff gerir handritið sem fyrr og Temuera Morrison og Rena Owen mæta aftur til leiks í hlutverkum sínum.

Alan Duff byggir kvikmyndahandritið á sinni eigin skáldsögu með sama nafni sem kom út árið 1997. "Miklar vinsældir fyrri bókarinnar og þessarar seinni einnig virðast undirstrika þá tilfinningu sem ég hef, að fólk hefur ekki enn fengið nóg af persónum sögunnar," er haft eftir rithöfundinum. "Mér finnst frábært að skuli hafa tekist að blása lífi í þær á hvíta tjaldinu í annað sinn."

Myndirnar hafa ekki sama leikstjóra. Lee Tamahori gerði fyrri myndina en í þetta sinn er það Ian Mune sem situr í leikstjórasætinu. "Þetta framhald á eftir að höfða til allra þeirra sem dýrkuðu fyrri myndina og þeirra sem eru að kynnast fjölskyldu Jakes í fyrsta skipi," segir hann í viðtali.