MIKLAR breytingar hafa orðið í útgerð og fiskvinnslu í Ólafsfirði á þessum áratug. Öflug landvinnsla hafði verið í bænum, tvö frystihús voru rekin þar með fjölda starfsfólks, en nú eftir að fyrirtækið Sæunn Axels hf.

MIKLAR breytingar hafa orðið í útgerð og fiskvinnslu í Ólafsfirði á þessum áratug. Öflug landvinnsla hafði verið í bænum, tvö frystihús voru rekin þar með fjölda starfsfólks, en nú eftir að fyrirtækið Sæunn Axels hf. var úrskurðað gjaldþrota fyrr í vikunni er lítið um hefðbundna fiskvinnslu að ræða í Ólafsfirði, en saltfiskvinnsla er rekin þar.

Þrír frystitogarar eru nú gerðir út frá Ólafsfirði, Mánaberg, Kleifaberg og Sigurbjörg, og er það Þormóður rammi-Sæberg sem gerir togarana út. Þá gerir Garðar Guðmundsson hf. út nótaskipið Guðmund Ólaf. Tvö skip sem áður voru gerð út frá Ólafsfirði, Sólberg og Múlaberg, eru nú gerð út frá Siglufirði. Um 120 manns, íbúar í Ólafsfirði, starfa á togurum Þormóðs ramma-Sæbergs og er uppistaða í tekjum bæjarsjóðs tilkomin vegna starfsemi fyrirtækisins.

Tvö frystihús og fjöldi starfsmanna í landvinnslu

Landvinnsla var í áratugi mjög umfangsmikil og störfuðu allt að 200 manns við hefðbundna botnfiskvinnslu í tveimur frystihúsum sem þar voru rekin. Annars vegar Hraðfrystihús Ólafsfjarðar sem var stofnað í byrjun árs 1941 og Hraðfrystihús Magnúsar Gamalíelssonar sem tók til starfa sumarið 1962.

Á níunda áratugnum þegar farið var að takmarka fiskveiðar og frystitogarar komu til sögunnar barst minna hráefni að landi og rekstrargrundvöllur varð ótryggari. Það leiddi til þess að frystihúsin tvö voru sameinuð árið 1989. Ári síðar, eða í desember árið 1990, keypti Sæberg hf. hið nýja sameinaða Hraðfrystihús Ólafsfjarðar.

Sæberg gerði þá út tvo togara Mánaberg og Sólberg, en það fyrrnefnda er frystitogari og það síðarnefnda ísfisktogari. HÓ var þá aðaleigandi Útgerðarfélags Ólafsfjarðar sem gerði út togarann Ólaf Bekk, en hann hafði á þessum tíma um 1700 tonna þorskígildiskvóta. Ólafur Bekkur varð síðar Múlaberg. Skip Sæbergs höfðu um 2.200 tonna kvóta í byrjun áratugarins.

Nokkur smærri fyrirtæki í útgerð og vinnslu

Fleiri fyrirtæki voru í útgerð og fiskvinnslu á þessum tíma, m.a. Sædís og Stígandi í eigu Gunnars Þórs Magnússonar og Sigvaldi Þorleifsson hf., Sæunn Axels var í saltfiskvinnslu og þá gerði Magnús Gamalíesson hf. út frystitogarann Sigurbjörgu.

Sæberg hætti landvinnslu í Ólafsfirði um áramótin 1996-1997 en vinnslan fór í gang að nýju undir vor árið 1997 þegar Sæunn Axelsdóttir og fjölskylda hennar tók við rekstrinum. Vinnslu hefur nú verið hætt eftir að fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota á þriðjudag. Á milli 30 og 40 manns störfuðu við vinnsluna undir það síðasta en starfsfólki hafði fækkað frá í sumar.

Í byrjun árs 1997 sameinuðust fyrirtækin Þormóður rammi á Siglufirði og Sæberg í Ólafsfirði undir nafninu Þormóður rammi-Sæberg. Magnús Gamalíelsson hf. gekk inn í félagið þá um sumarið. Þormóður rammi-Sæberg hafði í upphafi kvótaársins 1999-2000 yfir að ráða 13.553 þorskígildistonnum eða 3,74% af heildarkvótanum.

Sædís var sameinuð Hólmadrangi á Hólmavík, en Stígandi er enn með saltfiskvinnslu í Ólafsfirði. Þá er Sigvaldi Þorleifsson efh. einnig með saltfiskvinnslu í bænum.