31,9 MILLJARÐA viðskiptahalli var við útlönd á fyrstu níu mánuðum ársins borið saman við 31,4 milljarða króna halla á sama tíma í fyrra, samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands.

31,9 MILLJARÐA viðskiptahalli var við útlönd á fyrstu níu mánuðum ársins borið saman við 31,4 milljarða króna halla á sama tíma í fyrra, samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands.

Fjárinnstreymi mældist vera um 35,7 milljarðar króna á tímabilinu sem skýrist af miklum lántökum og skuldabréfaútgáfu innlendra aðila í útlöndum. Beinar fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi voru einnig umtalsverðar á þessu tímabili.

Hægir á fjárútstreymi vegna erlendra verðbréfakaupa

Fjárútstreymi vegna erlendra verðbréfakaupa mældist 19,7 milljarðar króna en heldur hægði á þeim viðskiptum á þriðja fjórðungi ársins. Aðrar erlendar eignir, innstæður, lán og viðskiptakröfur, hafa einnig aukist töluvert á þessu ári.

Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst á fyrstu níu mánuðum ársins um 5 milljarða króna og nam 34,7 milljörðum króna í lok september 1999.

Viðskiptahallinn var 12,4 milljarðar króna á þriðja fjórðungi 1999 borið saman við 10,5 milljarða króna halla á sama tímabili árið áður. Meiri halla í ár má rekja til óhagstæðari vöruskiptajafnaðar, einkum vegna samdráttar í útflutningi sjávarafurða, að því er fram kemur í frétt frá Seðlabanka Íslands.

Líkur á meiri viðskiptahalla en samkvæmt þjóðhagsáætlun

Horfur eru á að viðskiptahallinn á fjórða ársfjórðungi verði töluvert meiri en í fyrra, m.a. vegna þess að undir lok síðasta árs var stór farþegaflugvél seld úr landi.

Því eru allar líkur á að viðskiptahallinn á árinu í heild verði meiri en gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun í október sl. og meiri en í fyrra er hann nam 33,4 milljörðum króna.