Helgi Helgason, Ástþór Jóhannsson og Gunnlaugur Þráinsson hjá auglýsingastofunni Góðu fólki McCann-Erickson. "Þessi samningur hefur aðeins ávinning í för með sér fyrir okkur."
Helgi Helgason, Ástþór Jóhannsson og Gunnlaugur Þráinsson hjá auglýsingastofunni Góðu fólki McCann-Erickson. "Þessi samningur hefur aðeins ávinning í för með sér fyrir okkur."
AUGLÝSINGASTOFAN Gott fólk hefur gengið til samstarfs við bandarísku auglýsingakeðjuna McCann-Erickson, sem er sú stærsta í heimi og heitir fyrirtækið nú Gott fólk McCann-Erickson.

AUGLÝSINGASTOFAN Gott fólk hefur gengið til samstarfs við bandarísku auglýsingakeðjuna McCann-Erickson, sem er sú stærsta í heimi og heitir fyrirtækið nú Gott fólk McCann-Erickson. Bandaríska keðjan mun fjárfesta í 65% hlut í Góðu fólki en fyrri eigendur munu eiga 35%. Íslenskir eigendur Góðs fólks segja fjárfestinguna viðurkenningu á alþjóðavísu.

Í samtali við Morgunblaðið segja Helgi Helgason og Gunnlaugur Þráinsson, tveir af eigendum Góðs fólks, að ýmis verkefni í samstarfi við McCann-Erickson séu í deiglunni. "Frágangur fjárfestingarsamnings tekur langan tíma og því förum við hægt af stað," segir Helgi.

Aðspurðir segja þeir að samstarf við eins þekkt fyrirtæki sé mjög jákvætt fyrir Gott fólk. "Öll sú reynsla og þekking sem fyrir hendi er hjá McCann-Erickson, skapar mikla möguleika fyrir okkur og viðskiptavini okkar," segir Helgi. Mikil rannsóknarstarfsemi er innan keðjunnar og fræðsla til starfsmanna er álitin mikilvæg. Þetta segja þeir Helgi og Gunnlaugur koma Góðu fólki og starfsmönnum auglýsingastofunnar mjög til góða.

Stærsta auglýsingakeðja í heimi

McCann-Erickson er stærsta keðjan í eigu stórfyrirtækisins Interpublic Group (IPG), sem er annað stærsta fyrirtæki í Bandaríkjunum á sviði auglýsinga og markaðsmála, samkvæmt Fortune-listanum. Auk McCann-Erickson, eru sjö aðrar auglýsingakeðjur í eigu IPG, þar af tvær sem eru í sameiningarferli. Þrátt fyrir sameiningu þeirra, verður McCann-Erickson áfram sú stærsta.

Hjá McCann-Erickson starfa nú um 12 þúsund manns og hefur keðjan fjárfest í auglýsingastofum og tengdum fyrirtækjum víða um heim. Fyrirtækið hefur verið starfrækt síðan upp úr aldamótum en fyrirtækin McCann og Erickson voru sameinuð á fjórða áratugnum.

Gott fólk er önnur stærsta auglýsingastofa á Íslandi og eigendur eru, auk McCann-Erickson, Ástþór Jóhannsson, Gunnlaugur Þráinsson og Helgi Helgason. Vöxtur fyrirtækisins hefur verið um 35% á þessu ári og segja þeir Helgi og Gunnlaugur í samtali við Morgunblaðið að markmið fyrirtækisins sé fyrst og fremst að vaxa og gera það sem vekur athygli en ekki endilega að verða stærst á sínu sviði. Starfsmenn eru 36 talsins og viðskiptavinir eru mörg af helstu fyrirtækjum landsins.

Samstarf Góðs fólks við McCann-Erickson er tilkomið að frumkvæði hins síðarnefnda en menn á hennar vegum heimsóttu nokkrar auglýsingastofur hér á landi fyrr á árinu og hafa nú valið Gott fólk til samstarfs og fjárfestingar í framhaldi af því.

Mikið lagt upp úr sjálfstæði fyrirtækja

Að sögn Gunnlaugs og Helga lögðu forsvarsmenn McCann-Erickson á það ríka áherslu að þeir vildu fjárfesta í Góðu fólki, ekki með það fyrir augum að gera breytingar heldur fyrst og fremst með samstarf í huga. "McCann-Erickson hefur alltaf lagt mikið upp úr sjálfstæði þeirra fyrirtækja sem keðjan fjárfestir í. T.d. vinna auglýsingastofur í þeirra eigu jafnvel fyrir fyrirtæki í viðkomandi landi sem kannski er helsti keppinautur fyrirtækis sem hið alþjóðlega McCann-Erickson vinnur fyrir," segir Helgi og Gunnlaugur bætir við að frelsi Góðs fólks sé mjög mikið. "Þessi samningur hefur í raun aðeins ávinning í för með sér fyrir okkur."

Að sögn Gunnlaugs og Helga stendur McCann-Erickson í landvinningum nú um stundir og ákveðin alþjóðavæðing er í gangi hjá fyrirtækinu. Þeir félagar eru sammála um að alþjóðavæðing sé mikilvæg fyrir auglýsingastofur vegna þess forystuhlutverks sem þær gegna á heimsvísu, t.d. varðandi markaðssetningu á vörumerkjum og uppbyggingu ímyndar. "Það er mikilvægt fyrir auglýsingafyrirtæki að fá nýjar og ferskar hugmyndir hvaðanæva að úr heiminum til að staðna ekki og halda áfram að vekja eftirtekt."

Alþjóðaforstjóri McCann-Erickson, John Dooner, tók við því starfi árið 1997 og hefur haft alþjóðavæðingu fyrirtækisins að markmiði, þar sem viðskiptavinir fyrirtækisins eigi rétt á því að nálgast þjónustu þess hvar sem er í heiminum. Nú er starfsemi á vegum keðjunnar í um 180 borgum í tæplega 130 löndum.

Gæti haft margfeldisáhrif

Að sögn Helga og Gunnlaugs er Norður-Evrópa nú álitin sá heimshluti sem hvað mest er að gerast í viðskiptalífinu og fjárfestar líta í auknum mæli til þekkingar- og tæknifyrirtækja á þessu svæði, auk auglýsingafyrirtækja.

"Á þessu svæði er hátt menntunarstig og vinnusamt fólk," segir Gunnlaugur. Ísland er engin undantekning en það sem helst skilur Ísland frá hinum Norðurlöndunum er hversu lítið fjármagn við höfum. Það hefur svo aftur vakið athygli erlendra fyrirtækja, hversu góðar auglýsingar hér er hægt að gera miðað við svo lítið fjármagn," segir Gunnlaugur og bætir við að íslensk fyrirtæki eins og framleiðslufyrirtæki á auglýsingum, prentsmiðjur, netfyrirtæki, ljósmyndarar og fleira hafi einnig vakið áhuga McCann-Erickson. Samningur við eitt íslenskt fyrirtæki geti því haft margfeldisáhrif.