KR-stúlkur höfðu nokkra yfirburði gegn Keflavíkurstúlkum í gær. Hér er barist um boltann í leiknum.
KR-stúlkur höfðu nokkra yfirburði gegn Keflavíkurstúlkum í gær. Hér er barist um boltann í leiknum.
KR-INGAR unnu sjötta leik sinn í röð í úrvalsdeildinni þegar nýliðar Hamars komu í heimsókn í íþróttahús KR-inga í gærkvöld, 82:69. KR er því enn sem fyrr í efsta sæti deildarinnar. Hamar, sem er í 7. sæti, hafði fjögurra stiga forskot í hálfleik, 39:43.
KR-ingar, með Jónatan Bow í aðalhlutverki, byrjuðu með látum og náðu fljótlega átta stiga forskoti, en Hamarsmenn voru ekki á því að láta efsta lið deildarinnar stinga sig af og með mikilli baráttu náðu þeir að jafna og komast yfir áður en fyrri hálfleikur var úti. Það munaði miklu að Bandaríkjamaðurinn Brandon Titus gerði 20 stig í fyrri hálfleik.

Fljótlega í síðari hálfleik fóru að hlaðast inn villur á Hvergerðinga vegna vaskrar framgöngu þeirra í vörninni. Pétur Ingvarsson, Óli S. Reynisson og Hjalti Pálsson voru komnir með fjórar villur þegar fimm mínútur voru liðnar af hálfleiknum og staðan þá 52:47 fyrir Hamar. Þá fóru þeir á bekkinn og KR náði fljótlega yfirhöndinni. Þegar níu mínútur voru eftir komu þeir aftur inn á og leikurinn þá í járnum þar til þeir fuku útaf með fimm villur þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir og aðeins eins stigs munur, 67:66. Mikil spenna í loftinu en brotthvarf þeirra hafði mikið að segja og KR-ingar nýttu sér það og gerðu 15 stig á móti fjórum sem eftir lifði leiks.

KR-ingar léku ekki vel í fyrri hálfleik en sýndu styrk sinn þegar á þurfti að halda í lokin. Jónatan Bow, sem gerði 13 af fyrstu 15 stigum liðsins, var bestur ásamt Keith Vassell. Þá lék Ólafur Jón Ormsson vel og Daninn Jesper Sörensen gerði mikilvægar körfur í lokin. Liðið býr yfir mikilli breidd og var það kannski helsti styrkleikamunurinn á liðunum í þessum leik.

Brandon Titus var allt í öllu hjá Hamri. Hann er góð skytta og hefur mikinn sprengikraft. Þá var Pétur drjúgur meðan hans naut við og eins Skarphéðinn og Ómar Sigmarsson. Barátta liðsins var aðdáunarverð og ljóst að ekkert lið í deildinni getur leyft sér að vanmeta nýliðana.

"Við vorum ekkert að spila sérstaklega vel og það er því enn mikilvægara að vinna þannig leiki," sagði Ólafur Ormsson, fyrirliði KR. "Ég er ánægður að við náðum að þjappa okkur saman í lokin og innbyrða sigurinn. Hamarsmenn börðust vel og gáfust ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Við erum á góðri siglingu og höfum ekki enn tapað leik í nýja íþróttahúsinu okkar. Við erum með góða breidd og ætlum okkur stóra hluti í vetur," sagði Ólafur.

Valur B. Jónatansson skrifar