ALVARLEGUR misbrestur er auðsjáanlega í fjármálalegum rekstri heilbrigðiskerfisins og í eftirliti með útgjöldum ríkisins.
ALVARLEGUR misbrestur er auðsjáanlega í fjármálalegum rekstri heilbrigðiskerfisins og í eftirliti með útgjöldum ríkisins. Þetta sést á margra milljarða útgjöldum umfram fjárlög sem óskað er eftir að fjárveitingavaldið, Alþingi, samþykki eftir að peningunum hefur verið eytt. Að þessu sinni er um óvenjuháar upphæðir að ræða, sem eytt hefur verið án fjárlagaheimila, eða 7,9 milljarðar samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga. Þar af eru um fjórir milljarðar vegna sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana. Miklar hækkanir þurfa auk þess að koma til á fjárlögum næsta árs vegna heilbrigðismála.

Hér er um gamalþekkt vandamál að ræða en að þessu sinni gekk svo fram af þingmönnum, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, að þeir hafa krafizt úrbóta og jafnvel að forstöðumenn ríkisstofnana verði látnir sæta ábyrgð. Harkaleg viðbrögð nú stafa ef til vill af því að vegna skipulagsumbóta í fjárreiðum ríkisins undanfarin ár hafi niðurstaðan komið þingmönnum í opna skjöldu.

Það á að vera ófrávíkjanleg regla að opinberum fjármunum sé ekki eytt án heimildar og leitað sé eftir henni fyrirfram stefni í það að ríkisstofnanir þurfi rekstrarfé umfram fjárlög. Alþingi samþykkir sérstök lög um fjárveitingar og engum á að líðast að brjóta þau lög. Að sjálfsögðu koma ætíð upp tilvik þar sem nauðsynlegt er að auka útgjöld umfram fjárlög. Þá þarf fjármálaráðuneytið að leita samþykkis Alþingis eða fjárlaganefndar í umboði þess. Sérstakar reglur eru að sjálfsögðu nauðsynlegar um heimildir ríkisstjórnar í neyðartilvikum, t.d. vegna náttúruhamfara eða annarra ófyrirsjáanlegra atburða. Um slík tilvik snýst málið ekki heldur það að hægt sé nær hömlulaust að nota opinbert fé í heimildarleysi. Brýna nauðsyn ber til að setja starfsreglur sem tryggja að sagan endurtaki sig ekki.

Í þessu sambandi má minna á að í Bandaríkjunum gilda svo strangar reglur um eyðslu umfram fjárlagaheimildir að þegar peningarnir eru búnir stöðvast tiltekin starfsemi ríkisins frá þeim degi. Stofnanir ríkisins fá hreinlega hvorki afhent fé né geta tekið lán nema þær geti framvísað heimild. Ástæðan er að sjálfsögðu sú að peningarnir, sem til reksturs ríkisstofnana fara, koma frá öðrum, þ.e. skattgreiðendum. Einungis kjörnir fulltrúar þeirra geta lagt á skatta samkvæmt stjórnarskrá.

BÓKAÚTGÁFA

BÓKAVERTÍÐIN stendur sem hæst þessa dagana. Útgefendur hafa verið gagnrýndir fyrir að dreifa ekki útgáfunni meira um árið og er sú gagnrýni réttmæt. Því verður hins vegar ekki á móti mælt að mikil stemning er yfir þessari bókatíð síðustu vikurnar fyrir jól sem fæstir myndu kannski vilja verða af þrátt fyrir allt.

Ljóst má vera að bókaútgáfan hefur tekið nokkrum breytingum á síðustu árum og áratugum og eru þær flestar til batnaðar. Útgáfa bóka eykst jafnt og þétt en þess má geta að á síðustu þrjátíu árum hefur hún meira en tvöfaldast. Bókagerð hefur líka tekið stórstígum framförum eins og sjá má í betri prentun og hönnun bóka. Útgáfan verður ennfremur sífellt fjölbreyttari. Sérstaka athygli vekur hvað fræðiritaútgáfa er orðin mikil og hvernig tekist hefur að beina henni inn á almennan markað. Þar má bæði þakka viljugum og áhugasömum útgefendum en ekki síður því viðhorfi fræðimanna að nauðsynlegt sé að gefa út bækur um aðskiljanlegustu efni fræða og vísinda sem almenningur getur notið. Sömuleiðis vekur hið gríðarlega mikla þýðingastarf sem unnið hefur verið á undanförnum árum athygli. Mikið af stórvirkjum bókmenntanna hefur verið gefið út í vönduðum þýðingum og þannig auðgað íslenska bókmenntaflóru. Er það starf ómetanlegt.

Lengi hafa heyrst háværar raddir um að bókin sé á undanhaldi fyrir rafmiðluninni. Vissulega býður margmiðlunartæknin upp á ýmsa möguleika sem bókin hefur ekki en bókin hefur líka ótvíræða kosti fram yfir hina nýju tækni. Það hefur hún sannað með því að eflast sífellt þrátt fyrir að nýir miðlar hafi sótt inn á hennar svið alla þessa öld. Þróunin hefur verið sú að hinir nýju miðlar hafa orðið viðbót við bókina og hið prentaða mál. Og miðað við þá þróun sem lýst var hér að framan í bókaútgáfunni er ekki ástæða til að ætla annað en að bókin muni fylgja okkur enn um stund.