KVIÐDÓMUR í Memphis í Bandaríkjunum úrskurðaði á miðvikudag að hópur samsærismanna en ekki einn tilræðismaður hefði verið að baki morðinu á blökkumannaleiðtoganum Martin Luther King árið 1968.

KVIÐDÓMUR í Memphis í Bandaríkjunum úrskurðaði á miðvikudag að hópur samsærismanna en ekki einn tilræðismaður hefði verið að baki morðinu á blökkumannaleiðtoganum Martin Luther King árið 1968. Hér sitja ekkjan, Coretta Scott King, og sonur, Dexter King, fyrir svörum í útsendingu CNN í gærmorgun.

Kviðdómurinn ákvað einnig, að fjölskylda Kings skyldi fá 100 dali í skaðabætur frá fyrrverandi veitingamanni, Loyd Jowers, sem nefndur var sem einn samsærismannanna. Ekkja Kings og synir höfðu tjáð fréttamönnum að þau hefðu aðeins farið fram á þessa táknrænu upphæð til þess að leggja áherzlu á að þau væru að sækjast eftir réttlæti en ekki peningum.

Lögmaður King-fjölskyldunnar kallaði 50 vitni fyrir dóminn til að styðja kenningu sína um samsæri sem tengdi Jowers, mafíuna, bandaríska herinn og leyniþjónustuna CIA.