RÚMLEGA 31 kílómetra löng jarðgöng munu leiða Jökulsá í Fljótsdal frá Eyjabakkalóni og niður að stöðvarhúsi í Norðurdal þar sem áin verður virkjuð.

RÚMLEGA 31 kílómetra löng jarðgöng munu leiða Jökulsá í Fljótsdal frá Eyjabakkalóni og niður að stöðvarhúsi í Norðurdal þar sem áin verður virkjuð. Verði af byggingu Fljótsdalsvirkjunar verða göngin langlengstu jarðgöng sem ráðist hefur verið í hérlendis, og meðal lengstu virkjunarganga í Evrópu, samkvæmt Helga Bjarnasyni, deildarstjóra umhverfisdeildar Landsvirkjunar.

Aðrennslisgöng Fljótsdalsvirkjunar verða 31,2 km löng, en það samsvarar lengd tæplega sex Hvalfjarðarganga. Tæplega tvö ár mun taka að bora göngin og er gert ráð fyrir því að sú vinna hefjist í upphafi árs 2001 og standi fram til loka árs 2003. Þessi hluti framkvæmdanna er bæði tímafrekastur og dýrastur af þeim framkvæmdum sem munu eiga sér stað við Fljótsdalsvirkjun.

Kostnaður við gerð þeirra er áætlaður 9,3 milljarðar, eða 42% af heildarkostnaði hennar, samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun. Kostnaður við virkjunina í heild er áætlaður 22 milljarðar króna, með fjármagnskostnaði á byggingartíma, en án virðisaukaskatts. Næststærsti kostnaðarliður virkjunarinnar eru framkvæmdir við stöðvarhús og rafbúnað, sem nema 7,7 milljörðum króna eða 35% heildarkostnaðar. Kostnaður við stíflur og miðlanir er 15% heildarkostnaðar, eða 3,3 milljarðar króna og kostnaður við veituskurði, sem verða alls rúmir 10 km að lengd, verður 1,7 milljarðar króna, og nemur 7% heildarkostnaðar virkjunarinnar.