Guðmundur Gunnarsson
Guðmundur Gunnarsson
Björk, segir Guðmundur Gunnarsson, hefur reynst Íslandi stærsta og öflugasta kynning sem landið hefur eignast fyrr og síðar.

Í Morgunblaðinu í dag er grein eftir Birki J. Jónsson stjórnarmann hjá ungum framsóknarmönnum. Ég ætla ekki að hefja neinar ritdeilur við Birki en í grein hans eru nokkrar villur sem ég vil leiðrétta.

1. Innihald þess atriðis sem Björk lagði áherslu á í umfjöllun sinni um Eyjabakka er það, að fólk leitar í vaxandi mæli eftir ósnortnum svæðum á flótta undan borgarmenningunni. Það setur Ísland í þá sérstöðu sem hún hefur kynnst á ferðum sínum. Sérstöðu sem er að hennar mati mun verðmætari er ein virkjun og eitt álver. Með tilliti til þessa er inngangur Birkis einkennilegur.

2. Björk hefur reynst Íslandi stærsta og öflugasta kynning sem landið hefur eignast fyrr og síðar. Hún hefur nýtt hvert einasta tækifæri til að koma Íslandi að á blaðamannafundum og í þeim fjölmörgu viðtalsþáttum sem henni er boðið til. Hér má t.d. benda á útreikninga sem hafa komið fram í fjölmiðlum, t.d. Frjálsri verzlun. Þar var talið að ef sú kynning hefði verið keypt, sem Björk hefur verið Íslandi og íslenskum fyrirtækjum, hefði það kostað okkur nokkra milljarða króna. Margfalt meira en t.d. Flugleiðir eyðir í kynningu á landinu.

3. Birkir þekkir greinilega takmarkað til íslenskrar náttúru. Ef það gysi í Eyjafjallajökli mun það ekki hafa nein áhrif á vatnasvæði Þjórsár og virkjanir þar.

4. Björk býr á Íslandi og hefir gert það alla tíð ef undan eru skilin nokkur ár sem hún bjó í London, en hún flutti heim fyrir nokkrum árum.

5. Björk á ekki nein stórfyrirtæki í London eða annarsstaðar. Björk semur sína tónlist hér heima. Hún gerir síðan samninga við margskonar sérfræðinga, sem oftast koma hingað til þess að vinna að frekari útfærslum og upptökum. Hún gerir svo samninga við útgefendur um tónlist sína og kynningu á henni.

6. Björk hefur notað íslenskt starfsfólk eins mikið og hægt er. Þar má t.d. nefna þá hljómsveit sem spilaði undir með henni á síðustu tónleikaferð.

Málflutningur Birkis einkennist af venjubundinni umfjöllun íslenskra stjórnmálamanna enda titlar hann sig þannig. Þar skiptir málefnið engu máli, heldur er lögð áhersla á að gera ímyndaðan andstæðing tortryggilegan og ef ekki finnast haldbær rök til þess, þá eru þau bara búin til.

Höfundur er faðir Bjarkar