Birkir Friðbertsson
Birkir Friðbertsson
Íslenskar kýr eru dýrmætur erfðahópur sem hefur þróast við hérlendar aðstæður frá upphafi Íslandsbyggðar, segir Birkir Friðbertsson, og í sínum margvíslegu litum eru þær hluti íslensks umhverfis.

UM nokkur ár hefur staðið hörð deila innan bændastéttar og raunar innan alls þjóðfélagsins hvort eðlilegar ástæður geti verið fyrir því að gera tilraun með blöndun erfðaefnis úr kúm í Noregi í íslenska mjólkurkúastofninn. Engan skyldi undra þó að þessi umræða kæmi upp, hitt er áhyggjuefni að enn virðast þeir sem ferðinni ráða velkjast í vafa, eða það sem verra er að þeir sem lögðu af stað með málið í upphafi virðast flestir a.m.k. jafn æstir í þennan innflutning og áður og hafa ekkert lært.

Þessir áróðursmenn héldu því fram í fyrstu að svo nefnd Færeyjatilraun hefði gefið sérstakt tilefni til frekari tilrauna. Þegar því hafði verið mótmælt og sýnt fram á hið gagnstæða var tekið undir það að sú tilraun hefði allsendis verið ómarktæk af fjölmörgum ástæðum sem áður hafa verið raktar.

Enginn dregur í efa að sú blanda af evrópskum kynjum sem algengust er í Noregi og venjulega er talað um sem NRF-kynið mjólkar meira en þær íslensku eða sem svarar hlutfallslegum þungamun kynjanna og þarf engan að undra. Að öðru jöfnu má einnig taka undir að fljótlegra sé að mjólka færri kýr en fleiri til að fá sama mjólkurmagn. Einnig er staðhæft og réttilega að júgurlögun NRF-kúnna sé jafnbetri. Þar með eru upptalin þau rök sem heyrst hafa fyrir umræddri blöndun.

En hvað má telja til ókosta, eða eru þeir engir? Jú því miður er svo. Mikill þungi gripanna veldur því að þeim er og verður minna haldið til beitar m.a. vegna álags á viðkvæmari jarðveg. Þá má nefna að fætur þeirra þola illa álagið og gefa sig snemma. Dýralæknar sem margir hafa starfað í Noregi telja innflutninginn óráðlegan vegna mikils dýralækniskostnaðar. Slíkt staðfestist einnig með þeirri staðreynd að þessar kýr fara í sláturhús að meðaltali fjögurra ára eða eftir aðeins tvö mjólkurskeið. Flestar kýrnar af þessu kyni eru hyrndar og gefa hyrnd afkvæmi, hornin eru hins vegar brennd rétt eftir fæðingu. Sú aðgerð er ekki viðkunnanlegri en það að spurning er hvenær slíkt verður bannað alfarið af dýraverndarástæðum.

Ef íslensku kýrnar hefðu enga kosti umfram þessar stóru kýr og engin leið væri til þess að gera þær enn betri með innbyrðis ræktun gæti samt verið erfiðara að hafna umræddri innflutningstilraun, og e.t.v. leita eftir undanþágu frá undirskrifaðri Ríó-samþykkt um að koma í veg fyrir að kynjum og tegundum fugla og dýra verði viljandi útrýmt.

Kostir íslensku kýrinnar eru hins vegar margir og þó að of seint hafi verið tekið nægjanlegt tillit til júgur- og spenagerðar við ræktunina eru þar verulegir möguleikar með aukinni áherslu á þá þætti.

Með tilliti til vistvænnar framleiðslu eru íslenskar kýr dýrmætur erfðahópur sem hefur þróast við hérlendar aðstæður frá upphafi Íslandsbyggðar og í sínum margvíslegu litum eru þær hluti íslensks umhverfis og eiga fátt sammerkt með þeim hús- og búrdýrum sem innilokuð eru árið um kring.

Prótein/fituhlutfall þeirra er hagstætt í samanburði sem þýðir betri nýtngu á framleiddri mjólk eins og markaðurinn hefur þróast. Full ástæða er þó til að leggja vaxandi áherslu á að auka próteinframleiðslueiginleikann. Möguleikinn er einnig þar fyrir hendi.

Frjósemi og ending íslensku kúnna er meiri, þrátt fyrir að ýmsum þyki endurnýjunarþörfin mikil.

Hyrndar kýr eru nær horfnar úr stofninum.

Litafjölbreytni íslensku kúnna gleður auga gests og gangandi enda sýnilegt og jákvætt sérkenni.

Mjólk þeirra er kostameiri til ostagerðar og talið er að viss efnasamsetning að öðru leyti geti komið fram í því að hér er minni tíðni sykursýki en t.d. á hinum Norðurlöndunum.

Afurðageta bestu íslensku kúnna er orðin ótrúleg, þar sem saman hefur farið góður aðbúnaður og umhirða öll er byggð á þekkingu.

Út frá þekktum stærðum úr íslenskum búreikningum hafa lærðir menn sett fram þá niðurstöðu að fóðurkostnaður á mjólkurlítra muni vaxa um leið og hlutdeild nýs blóðs þessa erlenda kyns eykst. Verð á fóðurbæti hérlendis mun ráða þar úrslitum á hverjum tíma.

Af fenginni reynslu í búfjárrækt hefur lengi verið ljóst að seinlegt er og vandasamt verk að rækta fram hina betri kosti og aðskilja þá frá hinum verri. Ekki er hægt að reikna með að betur gangi að finna fósturvísa í Noregi sem ekki leiða til verulegrar stækkunar á kúm hér, verða með erfðaeiginleika sem gefa kollótt, halda litafjölbreytni, breyta ekki efnasamsetningu mjólkurinnar í óhagstæða átt með neinum hætti né draga úr frjósemi og endingu þess stofns sem fyrir er.

Sú tilraun sem hér er til umræðu mun kosta mikið fé og fyrirhöfn og síst eiga vannýtt hús í Hrísey eða tilraunamenn á lausu að verða hvati til þess hún verði að veruleika. Nefnt hefur verið að endanlegur árangur hennar eða niðurstaða liggi ekki fyrir fyrr en eftir allt að 20 ár. Hver verður þá kostnaðurinn orðinn og hver vill halda því fram að þá verði hægt að fjarlægja áhrif hennar á íslenska stofninn ef illa hefur til tekist? E.t.v. þá fyrst kemur einnig í ljós hvort fyrstu fósturvísaflutningarnir hafa borið hér áður óþekkt smit inn í landið eða ekki. Sagt er að áhættan sé lítil en jafnframt að hún sé fyrir hendi, en enginn er fær um að svara hvað hún má vera mikil og hlýtur það þó að tengjast ímyndaðri ávinningsvon eða hvað? Hvað réttlætir að taka áhættu í svo umdeildri ákvörðun meðal bænda og þjóðarinnar allrar?

Heyrst hafa þau rök að ef tilraunin verði ekki gerð muni hinir áköfustu innflytjendur hiklaust smygla inn sæði. Við skulum vona að í því efni sé talað af gáleysi, hins vegar væri slíkt í samræmi við þann fyrirgang og flumbruhátt sem merkjanlegur hefur verið þar á bæ frá byrjun. A.m.k. að það er síst verkefni hins almenna íslenska bónda að ráðast í dýra og vafasama tilraun til að koma í veg fyrir slík lögbrot.

Meðan óvissa ríkir um afdrif þessa máls þá veit enginn framleiðandi hver framtíðin verður. Þarf að miða byggingar við stærri kýr eða ekki? Hvað mun bændum fækka mikið beinlínis vegna þess að færri kýr þarf í landinu? Fækkar þeim þess vegna það mikið á vissum svæðum að öll mjólkurframleiðsla verði að leggjast af hvort sem það er þjóðhagslega réttlætanlegt eða ekki? (Af vistvænum ástæðum bæri frekar en ekki að draga úr flutningum lands- og heimshorna milli en ekki öfugt).

Ýmsir halda því fram að andstaða við innflutning sé tilfinningalegs eðlis. Það er út af fyrir sig tímans tákn að slíkt skuli metið á neikvæðan hátt, en þegar tilfinning sem byggist á huglægum grunni fer saman við staðreyndir og rökhyggju þá er létt að taka afstöðu. Svo ætti að vera í þesu máli hvort sem menn búa í þéttbýli eða dreifbýli. Sagan mun geyma umræðuna og þjóðin öll mun búa við niðurstöðuna.

Höfundur er bóndi og formaður Búnaðarsambands Vestfjarða, fyrrverandi búnaðarþingsfulltrúi og sat í stjórn Stéttarsambands bænda.