Erling Garðar Jónasson
Erling Garðar Jónasson
Virðum leikhús þjóðarinnar, segir Erling Garðar Jónasson, en klárum virkjun í Fljótsdal.

Er Göbbels hér? Í greinarkorni nýverið var gerð grein fyrir undrun minni á vel skipulögðu og ótrúlega máttugu áróðursapparati sem snarbeygir af og heilaþvær óskabörn þjóðarinnar hvert af öðru til fylgis við uppvakinn kærleik á freðmýrum í 600 metra hæð við Eyjabakka á Fljótsdalsheiði. Nú er hinsvegar af mér runnin undrunin, því nú er mér ljóst að ríkisútvarp okkar Íslendinga er ekki bara flytjandi válegra tíðinda vegna virkjanaframkvæmda á Fljótsdalsheiði, heldur er hvorki meira né minna en aðalgerandi í þeim áróðri og sefjun sem dælt er út vegna framkvæmdanna. Mánudaginn 22. nóvember 5 innlegg og kórónuð með viðtali við Árna Finnsson áróðursmeistara Greenpeace samtakanna í hvalamálinu. Þriðjudaginn 23. nóvember það sama. Smiðshöggið í innrætingunni kom svo frá Illuga yfirdómara ríkisútvarpsins í morgunsárið 25. nóvember. Og nýr Spegill ríkisútvarps speglar innrætið óhulið helgislepjufullyrðingunni um óhlutdrægni. Hlutdrægnin er ógurleg og einsleit. Ég fyrirlít gjörninginn allan og ákæri stjórnendur ríkisútvarpsins fyrir mjög gróf brot á grundvallarlögmálum um rekstur ríkisfjölmiðils, þá sérstaklega um hlutleysi. Sjónarmið meirihluta Austfirðinga og reyndar sjónarmið meirihluta þjóðarinnar í þessu máli eru hvorki rædd né ítrekuð.

Nú veit ég líka hvern ég á að persónugera, uppvakninginn Göbbels og get staðsett hann hjá stórhvölum nýkjörinnar stjórnar í Náttúrusamtökum Íslands. Það er mikill léttir að vita hvar ófreskjurnar eru og hvar baklandið er.

Skipt um ham og umhverfi ...!

Í umræðunni á Alþingi um Fljótsdalsvirkjun fór ótrúlegur kraftur og tími í skoðanaskipti um hvort menn hefðu heimild til að skipta um skoðun. Forsætisráðherra hóf þessa skoðanaúttekt á fyrrverandi ráðherrum og fór á kostum. Þessi leiksýning fór á þann veg að leikarar stjórnarandstöðunnar ofléku ógurlega og náðu ekki hinum rétta tóni í ruglinu. Öll þessi umræða er óþörf, í besta falli liðskönnun hjá ríkisstjórninni og er svo arfavitlaus að það tekur engu tali, léttúðin og ábyrgðarleysið sem hún lýsir kemur kannski best fram í því að allir flokkar eða flokksbrot hafa staðið að framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun frá því að þær hófust sumarið 1981 og að framkvæmdirnar hafa kostað rúmlega 3 milljarða króna, þetta er kannski skiptimynt í þenslunni á höfuðborgarsvæðinu, þetta er rétt eins og viðbótin við Kringluna kostaði, en fyrir dreifbýlingana þenslulausu veldur slík upphæð svima sé það ætlunin að henda henni út um gluggann. Að skipta um skoðun í þessu máli gengur því ekki án mikilla fjárútláta og grófra svika við Austfirðinga. Því miður var Hjörleifur, einn hinna fyrri ráðherra sem ekki skiptir um skoðun og vísindamaðurinn sem gerði grunninn að framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun, ekki lengur til staðar til að svara fyrir eða verja það að hafa skipt um skoðun um Fljótsdalsvirkjun. Hjörleifur Guttormsson skiptir ekki um skoðun, hann er enn roði úr varðeldi austursins með venjubundnum litbrigðum roðans, háð vindi og veðrum en ekki eigin funa og orku. Slíkir skipta ekki um skoðun, slíkir breyta um blæbrigði og form, tilgangurinn helgar meðalið segja slíkir, og brenna menn og annað. Svíkja er ekki synd ef slíkt helgar málstaðinn. Á slíkum þarf ekki að gera úttekt, "þeir brenna sjálfir sínum kveikjum" eins og skáldið sagði. Slíkir geta ekki skipt um skoðun, alls ekki í máli þar sem slíkur er vísindamaðurinn sem eyðir öllum grun um skaða af völdum málsins, meðhöndlar málið jákvætt málsins vegna sem stjórnmálamaður og framkvæmir málsatvik jákvætt málsins vegna sem ráðherra. Slíkur getur ekki skipt um skoðun málsins vegna. Ef slíkir geta skipt um skoðun þá er eitthvað meira en lítið að í toppstykkinu á slíkum og þörf er verulegrar endurhæfingar. Hann veit manna best að verkfærið "Umhverfismat á grundvelli laga nr. 63/1993" er ónothæft á Fljótsdalsvirkjun vegna heimildarákvæða í eldri lögum um virkjun í Fljótsdal.

Þingmaðurinn kom jú virkjuninni á koppinn sem vísindamaður, þingmaður og ráðherra. En nú leggst þessi þingmaður á lægra plan en virðingu hans og pólitískum metnaði er samboðið og leggur til að nota verkfæri sem myndi kosta hundruð milljóna króna að nota í væntanlega endalausri þrætubók um virkjunarframkvæmdir í Fljótsdal og hann er búinn eyða

3. milljörðum króna í verkið. Svona gera ekki fullorðnir menn. Hann hafði líka ákveðið að bjóða sig aldrei aftur fram á Austurlandi, en tilkynnir að hann sé ekki hættur í pólitík. Þess vegna þarf að slá sig til riddara til að ganga í augu, hug og hjarta sjálfskipaðra einkaleyfishafa ástar á náttúrunni búsettra í manngerða umhverfinu og gera allt vitlaust í manngerða umhverfinu fyrir málstaðinn. Hjörleifur ákvað að bjóða sig fram í Reykjavík og hætta í vist hjá sínum heimamönnum.

Hjörleifur ráðherra sagði 6. maí 1982 þegar samþykkt var þingsályktunartillaga um virkjanastefnu/virkjanaröð á Alþingi.

"Ég vænti þess fastlega að í þeim stóru málum sem hér er tekið á ríki friður við framkvæmdir og þær megi verða landsmönnum öllum til heilla hvort sem þær taka 10 ár, 12 ár eða 15 ár, uns þær eru til lykta leiddar..."Tilvitnun lýkur. Hér biður forystumaður náttúruverndar á Íslandi og stofnandi NAUST, Náttúruverndarsamtaka Austurlands, og formaður allan áttunda áratuginn, um frið og samstöðu, enda voru öll samtök og stofnanir á því sviði búin að samþykkja virkjun í Fljótsdal fyrir sitt leyti og háttvirt Alþingi 1981. Það fannst ekki hjáróma rödd vegna framkvæmda á Fljótsdalsheiði.

Ég hef oft við önnur tækifæri dáðst að dugnaði Hjörleifs og mörgum góðum kostum. Það geri ég enn, en gallar hans eru að fara offari, klára ekki verkefnin og vera enn ofhlaðinn byltingarástinni austan úr löndum. Slíkt þvælist rosalega fyrir vænsta fólki. Í leikritagerð stjórnmálanna verða menn að hafa í huga að meiða ekki til skaða fyrir þjóðina. Svo einföld eru þau óskrifuðu grunnlög sem háttvirt fólk á Alþingi ættu að hafa í huga.

Virðum leikhús þjóðarinnar, en klárum virkjun í Fljótsdal.

Höfundur er umdæmisstjóri RARIK á Vesturlandi, áður á Austurlandi.