HÆSTIRÉTTUR hefur hafnað kröfum fimmtugrar konu, sem vildi að viðurkennt yrði að konan, sem öll opinber plögg sögðu vera móður hennar, væri ekki líffræðileg móðir hennar.

HÆSTIRÉTTUR hefur hafnað kröfum fimmtugrar konu, sem vildi að viðurkennt yrði að konan, sem öll opinber plögg sögðu vera móður hennar, væri ekki líffræðileg móðir hennar. Rétturinn sagði yfirgnæfandi líkur á að konurnar væru mæðgur og byggði þá niðurstöðu m.a. á erfðafræðirannsóknum. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem móðernismál kemur til kasta íslenskra dómstóla.

Samkvæmt fæðingarskýrslum átti kona í Reykjavík dóttur í heimahúsi árið 1949. Stúlkan ólst upp hjá foreldrum sínum til 16 ára aldurs, en 34 árum síðar höfðaði hún móðernismálið. Hún hélt því m.a. fram að þar sem hún væri fædd í heimahúsi væri tilkynning til hins opinbera og skráning um fæðingu hennar ekki óyggjandi þar sem hún væri byggð á frásögn ætlaðrar móður hennar.

Konan sem málið höfðaði sagði líka, að þegar hún hafi unnið hjá Félagsmálastofnun árið 1994 hafi hún verið send inn á heimili gamallar konu, sem hafi verið mjög forvitin um fjölskyldu hennar. Gamla konan hafi sagt að ætluð móðir hennar væri ekki rétta blóðmóðir hennar heldur hafi einungis alið hana upp.

Konunum var tekið blóð í janúar 1995 og það sent út til rannsóknarstofu í Englandi þar sem rannsóknir voru gerðar á erfðaefninu DNA. Niðurstaða þeirrar rannsóknar var sú að líkurnar væru 99,99% fyrir því að móðirin væri í raun og sann líffræðileg móðir konunnar. Í fæðingarskýrslu Fríkirkjuprestakalls árið 1949 séu þær skráðar mæðgur.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í þessu máli kom fram, að í barnalögum nr. 20/1992 er ekki að finna sérstök ákvæði sem lúta að vefengingu á móðerni barns. "Hins vegar er að finna í 52. gr. ákvæði sem lýtur að vefengingu á faðerni barns. Er í sérákvæði þessu, sem gengur framar almennum reglum, að finna tæmandi talningu á þeim sem geta átt aðild að slíku máli. Enda þótt ekki sé í barnalögum gert ráð fyrir reglum sem varða vefengingu á móðerni barns verður að telja að það útiloki ekki að slíkt mál verði höfðað. Leggja verður til grundvallar að barn geti haft jafn ríka hagsmuni af því að fá móðerni sínu hnekkt og það hefur af því að fá faðerni sínu hnekkt. Með hliðsjón af framansögðu verður að telja að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið fyrir dómi hvort stefnda telst móðir hennar. Samkvæmt þessu þykir rétt eins og hér stendur á og með lögjöfnun frá 1. mgr. 52. gr. barnalaga að heimila stefnanda að krefjast dóms til viðurkenningar á því að stefnda sé ekki móðir hennar," sagði í héraðsdóminum, en Hæstiréttur vísaði til þessara forsendna í dómi sínum.