eftir ýmsa höfunda í þýðingu margra og margir hafa myndskreytt. Útgefandi: Skálholtsútgáfan. 96 bls.

ÞAÐ hefur tíðkast á íslenskum heimilum undanfarna áratugi að börn telji dagana til jóla með hjálp jóladagatals. Framtíðarlandið er eins konar jóladagatal, en þó óvenjulegt. Það hefur að geyma fallega skreytta sögu fyrir hvern dag sem rúmar eina opnu. Til að viðhalda leyndardómi dagatalsins eru blöð bókarinnar límd saman á efri rönd þannig að "rífa" verður næsta blað bókarinnar frá því sem eftir er af henni til að geta flett og lesið næstu sögu. Dagatalinu lýkur ekki um jólin, eins og flest jóladagatöl, heldur á þrettándanum, 6. janúar.

Flestir velta fyrir sér hinstu rökum tilverunnar, enda er lífið leyndardómur, segir í formála. "Hvað skiptir máli í lífinu? Í hverju felst gott líf?" Það getur verið hollt að heyra aðra svara slíkum spurningum, því að lífið er og verður leyndarómsfullt. Framtíðin er það einnig en margt í framtíðinni er líkt því sem gerðist í fortíðinni. Þess vegna er hægt að læra af henni. Í þessari bók eru gamlar og nýjar sögur sem gefa aðeins takmarkaða innsýn í hinn leyndardómsfulla heim sem við búum í. Hver þeirra lýkur upp einhverjum leyndardómum. Þær leiða lesandann inn í Framtíðarlandið, land leyndardómanna.

Ramminn utan um þetta sögusafn eru atburðir sem gerðust í Tímalandinu, sem er óralangt úti í himingeimnum. Stjörnubarnið Harpa sem býr þar verður veik og skin hennar dofnar. Hætta er á að hún fari út af sporbaug sínum og hverfi jafnvel vegna þess að hana vantar næringu, sögur. Venjulegar sögur duga ekki sem lækning. Það verður að segja henni sögur sem boða trú, von og kærleika vegna þess að trúin heldur henni á sporbaugnum, vonin sýnir stefnuna sem taka á og kærleikurinn gefur mátt til að skína að mati vitrustu stjarnanna. Halastjarna sem hefur ferðast víða segir konungi Tímalandsins frá því að hún hafi, samkvæmt skipun hans, farið til lands sem geymir sögu allra tíma. Stjörnubörnin Stella og Svanur bjóðast til að fara og ná í söguna svo að Harpa nái heilsu á ný. Konungur fær þeim óskrifaða bók til fararinnar svo að þau geti skráð í hana þær sögur sem þau kunna að finna í ferðinni. Ferðin liggur til Danmerkur, Svíþjóðar, Finnlands, Noregs og Íslands og ferðalangarnir finna fjölda sagna og rita í bókina, sem fyllist brátt. Þær er að finna í þessari bók, Framtíðarlandinu. Þetta eru margar sögur, en þar er einnig saga allra tíma, sem er sú fallegasta og gleðilegasta vegna þess að hún er sönn. Hún segir frá skaparanum sem sendi son sinn í heiminn til að fæðast á meðal mannanna. Stjarna, sem var fyllt trú, von og kærleika, vísaði leiðina til hans. Þessi saga bjargar lífi stjörnubarnsins Hörpu á síðustu stundu og gefur henni von um betra líf. Konungur Tímalandsins segir að upp frá þessu skuli landið sem sagan fannst í vera kallað Framtíðarlandið.

Kristnum boðskap er miðlað í þessari bók með sérstökum hætti með ævintýrum og frásögum úr Biblíunni. Hún er samstarfsverkefni kirkna á Norðurlöndum, en kemur einnig út á eistnesku og norður-samísku. Sögur bókarinnar eru eftir fjölmarga höfunda frá þessum löndum og skreytingarnar einnig. Söfnuðir þjóðkirkjunnar gefa sóknarbörnum sínum á aldrinum fjögurra til tíu ára eintak af henni í tilefni þess að haldið er upp á að brátt eru þúsund ár liðin frá því að kristni var lögtekin í landinu.

Þessi bók er mjög vönduð að allri gerð og á erindi við börn á öllum aldri. Tilvalið er fyrir fjölskyldur að safnast saman til sögustundar í kringum jólin og njóta sögu dagsins. Bókin er forlaginu til mikils sóma.

Kjartan Jónsson