RON Brown, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna fórst í flugslysi við Dubrovnik í Króatíu 3. apríl 1996.

RON Brown, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna fórst í flugslysi við Dubrovnik í Króatíu 3. apríl 1996. Boeing T-43A þotu ráðherrans, sem svarar til 737-200 farþegaþotu, var flogið inn í hlíðar Jóhannesarfjalls í um 700 metra hæð, þremur kílómetrum norður af vesturenda flugbrautarinnar í Dubrovnik. Með þotunni voru, auk ráðherrans, 27 farþegar og sex manna áhöfn og fórust allir.

Vegna sparnaðarráðstafana var vél ráðherrans hvorki búin gervihnattastaðsetningartækjum (GPS) né flug- og hljóðritum og torveldaði það rannsókn slyssins. Í kjölfar slyssins gaf William Perry, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, fyrirmæli um, að búnaður af því tagi skyldi settur í allar farþegaflugvélar bandarísku herjanna.

Aðflugsbúnaður í Dubrovnik var ófullkominn og urðu flugmennirnir að fljúga svokallað hringsjáraðflug að radíóvita sem sendir óstefnuvirkar hljóðbylgjur frá sér. Flugstefnan sem þeir völdu reyndist röng. Ekkert kom fram við rannsókn sem benti til bilunar í þotunni.

Í kjölfar slyssins voru öryggisreglur um flug æðstu manna Bandaríkjanna teknar til endurskoðunar og hertar.