BREYTINGATILLÖGUR meirihluta fjárlaganefndar Alþingis við fjárlagafrumvarpið vegna annarrar umræðu um fjárlagafrumvarpið, sem fram fer á Alþingi í dag, gera ráð fyrir 3.639 m.kr. aukningu á útgjöldum ríkisins. Þar af eru 2.100 m.kr.

BREYTINGATILLÖGUR meirihluta fjárlaganefndar Alþingis við fjárlagafrumvarpið vegna annarrar umræðu um fjárlagafrumvarpið, sem fram fer á Alþingi í dag, gera ráð fyrir 3.639 m.kr. aukningu á útgjöldum ríkisins. Þar af eru 2.100 m.kr. vegna framlaga til sjúkrastofnana, sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið.

Fram kemur í nefndarálitinu, sem lagt var fram í gærkvöldi, að aukaframlögunum sé ætlað að koma til móts við áætlaðan uppsafnaðan halla sjúkrastofnana til loka 1999 og koma rekstri flestra stofnana á réttan kjöl árið 2000. "Ljóst er að stjórnendur nokkurra stofnana þurfa að taka verulega á í fjármálastjórn til að reksturinn verði í jafnvægi," segir þar.

Segir ennfremur að verulegum viðbótarfjármunum sé hér varið til reksturs sjúkrastofnana, fjármunum sem fari í kostnaðarhækkanir, sem þegar séu áfallnar. "Það er ljóst að bæta má fjármálastjórn stofnana heilbrigðisráðuneytisins og gera hana skilvirkari en nú er. Það er mjög brýnt að ná tökum á þeim vanda og leita í því sambandi allra hugsanlegra leiða svo að þessar stofnanir fari að fjárlögum í framtíðinni," segir í álitinu.

"Framlögin eru veitt með þeim skilyrðum að gerðir verði samningar við stjórnendur og að tekið verði á fjármálastjórn stofnana. Að öðrum kosti er gert ráð fyrir að þessar fjárveitingar verði felldar niður í fjáraukalögum ársins 2000."