ÞINGMENN Frjálslynda flokksins hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um sameiningu ríkisbanka áður en þeir verði seldir.

ÞINGMENN Frjálslynda flokksins hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um sameiningu ríkisbanka áður en þeir verði seldir. Var þingsályktunartillögunni dreift á meðan umræður um frumvarp til laga um sölu 15% hlutafjár ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka stóðu yfir í gær.

Í þingsályktunartillögunni segir að Alþingi álykti að ríkisstjórninni verði falið að láta kanna hagkvæmni þess að sameina ríkisbanka áður en til sölu þeirra kemur til svo tryggja megi þjóðinni hámarksarð af eign sinni.

Í greinargerð með tillögunni er vísað til fyrrnefnds frumvarps viðskiptaráðherra en skv. því er stefnt að sölu 15% hlutafjár ríkis í Landsbanka og Búnaðarbanka í lok desember 1999. Er jafnframt vísað til þess að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að selja hlutabréf í ríkisbönkunum til að ná fram hagræðingu á fjármálamarkaði en tryggja um leið virka samkeppni á markaðnum til að ná fram ódýrari þjónustu. Ennfremur að þess verði gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eignarhlut sinn.

"Flutningsmenn tillögunnar telja víst að ríkisstjórnin vilji standa að sölu þessara eigna í samræmi við stefnuyfirlýsingu sína og því hljóti að teljast eðlilegt að auka verðmæti eignanna áður en þær verða falboðnar," segir í greinargerð þingsályktunartillögunnar, sem þeir Guðjón A. Kristjánsson og Gunnar Ingi Gunnarsson leggja fram.

"Komið hefur fram opinberlega í viðtölum við stjórnendur banka að þeir telji að bankar verði sameinaðir þegar ríkið á ekki lengur meiri hluta. Því er rétt að sameina bankana fyrst til að þjóðin fái hámarksarð af eign sinni," segir ennfremur í greinargerð.