[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VEITINGASTAÐURINN Apótek hefur verið opnaður í Austurstræti 16, þar sem áður var til húsa Reykjavíkurapótek. Það eru þau hjónin, Guðvarður Gíslason og Guðlaug Halldórsdóttir, sem leigja húsnæðið og reka veitingastaðinn.

VEITINGASTAÐURINN Apótek hefur verið opnaður í Austurstræti 16, þar sem áður var til húsa Reykjavíkurapótek. Það eru þau hjónin, Guðvarður Gíslason og Guðlaug Halldórsdóttir, sem leigja húsnæðið og reka veitingastaðinn. Guðvarður segir að nafngift staðarins sé einfaldlega til þess að heiðra hið gamla fallega Reykjavíkurapótek, sem allri þjóðinni hafi þótt vænt um.

Þegar inn er komið er ýmislegt sem minnir á gamla apótekið, því vegginnréttingar á hliðinni sem snýr að Austurstræti voru friðaðar, ásamt uppsetningu á nöfnum apótekaranna sem verið hafa í húsinu. Innréttingar, afgreiðsluborðið og annað sem tilheyrði apótekinu, var einnig friðað en leyfi veitt til að taka það niður og setja í geymslu.

Guðvarður segir að þau hjónin hafi sjálf hannað nýju innréttingarnar og jafnframt leitast við að endurgera húsnæðið í upprunalegt form. Marmarasúlur og gifssteypur í loftum voru gerðar upp, þannig að umhverfið er því upprunalegt og gamaldags með nýmóðins innréttingum.

Hann segir að með því að breyta húsnæðinu í veitingastað sé það komið í upprunalegt horf, en þarna var áður rekinn veitingastaðurinn Café Rósenberg sem var opnaður árið 1924.

Staðurinn tekur 110 manns í sæti í veitingasal og jafnframt eru sæti fyrir 35-40 í þeim hluta sem tekinn er undir kaffihús. Staðurinn er því í raun tvískiptur; kaffihús með léttum réttum og síðan er hefðbundið veitingahús.

Fyrirtæki þeirra hjóna sem rekur veitingastaðinn heitir Evros, sem er latneska og þýðir austur. Það er táknrænt fyrir staðinn sem stendur við Austurvöll og Austurstræti og jafnframt er matargerðin í svokölluðum "fusion" stíl, sem er samblanda af Miðjarðarhafs- og Asíumatreiðslu. Innréttingarnar bera einnig með sér austurlensk áhrif.