HÆSTIRÉTTUR hefur staðfest dóm héraðsdóms um 60 daga fangelsi yfir manni, sem ók stórum jeppa að þvögu fólks fyrir utan samkomustað á Selfossi í janúar í fyrra.

HÆSTIRÉTTUR hefur staðfest dóm héraðsdóms um 60 daga fangelsi yfir manni, sem ók stórum jeppa að þvögu fólks fyrir utan samkomustað á Selfossi í janúar í fyrra. Hann ók jeppanum á ljósastaur með þeim afleiðingum að staurinn brotnaði og féll niður á gangstétt, en þrátt fyrir atganginn sluppu allir viðstaddir án meiðsla.

Maðurinn, sem var ölvaður þetta kvöld, neitaði að hafa ekið bifreiðinni í umrætt sinn, en þegar lögregla handtók hann sat hann í farþegasæti hennar. Vitni báru hins vegar að hann hefði ekið, en síðar fært sig yfir í farþegasætið. Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Suðurlands um fangelsisvistina og tók undir að maðurinn skyldi sviptur ökuréttindum ævilangt, enda var þetta í þriðja skipti sem honum var gerð refsing fyrir ölvunarakstur.