GEIR H.

GEIR H. Haarde fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpi til laga á Alþingi á miðvikudagskvöld um breytingu á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, en breytingin felur í sér bann við hópuppsögnum opinberra starfsmanna á meðan kjarasamningar eru í gildi. Kom fram í máli ráðherrans að markmið frumvarpsins væri að tryggja að ekki giltu aðrar reglur um opinbera starfsmenn en almennt launafólk hvað varðar hina svokölluðu friðarskyldu og aðgerðir sem jafna megi til vinnustöðvunar.

Geir rakti í framsöguræðu sinni að tildrög þessa frumvarps væri nýlegur dómur Félagsdóms vegna uppsagna fjölda opinberra starfsmanna í sömu starfsstétt á sama tíma hjá sveitarfélaginu Árborg. Féllst Félagsdómur þar ekki á að gildandi lagaákvæði væru fullnægjandi til þess að flokka fjöldauppsagnirnar sem aðgerðir sem jafna mætti til vinnustöðvunar og brots á friðarskyldu.

Sagði Geir að Félagsdómur hefði ekki talið unnt án skýrra lagaákvæða að taka af skarið með þeim hætti sem krafist var í því máli af hálfu sveitarfélagsins Árborgar.

"Það sem hér er verið að leggja til," sagði Geir, "er það að sett verði skýr lagaákvæði um þetta mál. Það hygg ég að sé nauðsynlegt og það hygg ég að sé öllum aðilum sem að þessum málum koma fyrir bestu vegna þess að það er mjög nauðsynlegt að um málefni á vinnumarkaði gildi alveg skýrar leikreglur og það hefur ekki verið að þessu leyti til."

Gagnrýnt að ekki skuli haft samráð við stéttarfélögin

Fram kom í máli Geirs að þótt hann teldi það farsælast að breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna væru gerðar í góðu samráði hefði slíku ekki verið til að dreifa við gerð þessa lagafrumvarps.

Þetta gagnrýndu flestir þeirra þingmanna sem til máls tóku í gær og m.a. sagði Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, það vond vinnubrögð að drífa þetta mál í gegnum þingið án nokkurs samráðs við stéttarfélögin. Samt hefðu þau verið búin að lýsa sig tilbúin til að samþykkja breytinguna ef horft væri til annarra lagaákvæða í leiðinni.

Ögmundur sagði eðlilegt að litið hefði verið til endurskoðunar á lögunum í heild enda væru aðstæður opinberra starfsmanna ekki aðeins að þessu leyti til frábrugðnar aðstæðum almennra launþega. Tók hann m.a. dæmi um að tilteknir hópar opinberra starfsmanna hefðu lítinn eða engan verkfallsrétt, andstætt almennum launþegum. Sagði Ögmundur það furðulegt af fjármálaráðherra að segja að samræma þyrfti reglur í þessum efnum, en hlaupa svo til og breyta tiltekinni reglu eftir að dómur hefði fallið atvinnurekendum í óhag.