Karen Erla Erlingsdóttir
Karen Erla Erlingsdóttir
Er þetta ekki dapurleg framtíðarsýn, spyr Karen Erla Erlingsdóttir, að stóriðja skuli vera eina von okkar Austfirðinga?

FORMAÐUR Afls fyrir Austurland vílar ekki fyrir sér að tala fyrir munn allra Austfirðinga í fjölmiðlum þegar hann leitast við að verja málstað virkjana og stjóriðjuframkvæmda á Austurlandi.

Að sjálfsögðu talar hann fyrir hönd þeirra rúmlega 2000 skoðanabræðra sinna sem rituðu undir stuðningsyfirlýsingu við áform ríkisstjórnarinnarað um að sökkva Eyjabökkum án undangengins umhverfismats og byggingu álvers í Reyðarfirði.

Hann hefur hins vegar ekkert leyfi til þess að tala fyrir munn okkar hinna. Í því sambandi vil ég minna hann á að á Austurlandi búa 12 til 13 þúsund manns og fram að þessu hefur engin skoðanakönnun sýnt fram á annað en að helmingur Austfirðinga sé fylgjandi mati á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar.

Talsmanni Afls er gjarnt að tala niður til fólks, sérstaklega þeirra sem hafa aðra skoðun en hann á málum.. Í málflutningi sínum um Fljótsdalsvirkjun gerir hann enga undantekningu á þessu.

Tónlistarmaðurinn Björk Guðmundsdóttir fær að sjálfsögðu sinn skammt hjá honum. Honum finnst það líklega sínum málstað til framdráttar að gera lítið úr fyrrverandi forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur og fyrrverandi forsætisráðherra Steingrími Hermannssyni.

Hvað talsmanninum gengur til með þessu er óvíst en "okkur Austfirðingum" væri afskaplega mikill greiði gerður ef hann léti sér nægja að tala bara fyrir sína hönd og síns félagsskapar.

Talsmaðurinn hefur ítrekað haldið því fram að uppbygging stóriðju í Reyðarfirði sé eina framtíðarvonin í atvinnumálum á Austurlandi og hann blæs á hugmyndir Bjarkar um að hugsanlega væri hægt að byggja upp atvinnu á landsbyggðinni með því að virkja hugvit fólks. Þetta er svo sem ekkert skrítið því svona talar ríkisstjórnin, svona tala flestir þingmenn Austurlands og svona tala flestir sveitarstjórnarmenn á Austurlandi. Er þetta ekki dapurleg framtíðarsýn fyrir okkur Austfirðinga og afkomendur okkar ? Að stóriðja skuli vera okkar eina von í atvinnumálum í framtíðinni? Er ekki verið að gera frekar lítið úr okkur og hæfileikum okkar sem hér búum?

Ég tek undir orð Illuga Jökulssonar að hér eru miklir hagsmunir í húfi. Það er alveg ljóst að það eru margir m.a. hér á Austurlandi sem ætla sér einfaldlega að "mata krókinn" á framkvæmdunum. Stjórnmálamenn hafa árum saman rekið handónýta byggðastefnu og halda nú að þeir geti leyst byggðavandann í eitt skipti fyrir öll. Þeir hafa því miður ekki meira hugmyndaflug.

Höfundur er tveggja barna móðir á Egilsstöðum.