Hannes Baldvinsson
Hannes Baldvinsson
Það er von mín að einhver geti fengið ráðamenn Siglufjarðar til að hætta við áform sín, segir Hannes Baldvinsson, og breyta legu vegarins þannig að Skógræktin fái að vera í friði.

Á SÍÐASTA fundi í bæjarstjórn Siglufjarðar voru samþykktar hugmyndir frá útibúi Vegagerðarinnar á Sauðárkróki um endurbætur á vegi að skíðasvæði Siglfirðinga í Skarðdal. Þetta væri varla í frásögur færandi ef ekki fælist í þessari samþykkt að fallist er á þá tillögu Vegagerðarinnar að fara með veginn að hluta til inn á landsvæði Skógræktarinnar og urða þar eða ryðja í burtu, meðal annars meira en 20 ára gömlum furutrjám, sem engin leið er að flytja eða bjarga á annan hátt.

Stjórn Skógræktarfélags Siglfirðinga, sem fram að þessu hefur átt allgott samstarf við bæjaryfirvöld, óskaði eftir því að leitað yrði annarra leiða í lagningu vegarins, leiða sem ekki hefðu í för með sér þessa fyrirsjáanlegu eyðileggingu. En því miður hefur greinilega verið talað fyrir daufum eyrum. Hvorki mótmæli á kynningarfundi, sem bæjarstjórn hélt fyrr í haust, né samþykkt frá aðalfundi félagsins sem send var bæjarráði virðast hafa náð hlustum bæjarfulltrúanna.

Saga skógræktar í Siglufirði er ekki löng en hún hefur þá sérstöðu að vera að mestu leyti verk eins manns. Skógræktarfélag Siglufjarðar var stofnað fyrir tæpum 60 árum af nokkrum félögum úr Rotary-klúbbnum. Margir, og þeirra á meðal kunnáttumenn á sviði skógræktar, töldu fásinnu að ætla sér að rækta skóg norður við Dumbshaf, í firði sem er opinn fyrir stórviðrum í hafátt og óvíða að finna skjól fyrir særoki og snjóum. Sönnunargögnin blöstu við, kræklóttar og óræktarlegar hríslur í námunda við íbúðarhús og tilraunir átthagafélaga sem mistókust hver af annarri voru talandi dæmi til að draga úr mönnum kjarkinn og staðfesta hrakspárnar. Það þurfti því töluverðan kjark og mikla bjartsýni til að takast á af alvöru við að rækta skóg á þessum stað.

En brautryðjandann, Jóhann Þorvaldsson, skorti hvorki kjark né bjartsýni. Hann hófst handa við að rækta skóg í Siglufirði í landi Skarðdalskots, sem bæjaryfirvöld fengu Skógræktarfélaginu til umráða og fékk til liðs við sig fleiri bjartsýnismenn ásamt skólaæsku bæjarins og þeir munu ekki margir Siglfirðingarnir, sem komnir eru um og yfir miðjan aldur, sem ekki hafa tekið til hendinni í Skógræktinni, undir leiðsögn og stjórn Jóhanns Þorvaldssonar. Þegar starfsemin kallaði á aukið landrými var bætt við afgirtu svæði úr landi Skarðdals og enn síðar spildu úr landi Leynings. Árangurinn er sannarlega kominn í ljós og er Skógræktin í Siglufirði nú stolt flestra bæjarbúa. Þar er að líta afraksturinn af frístundastarfi eins manns, sem ekki lét úrtölur eða erfiðleika ráða ferðinni. Hann valdi ekki auðveldustu leiðina en varð fyrirmynd þeirra sem hafa hugsjón og kjark til að berjast fyrir henni.

Skógræktarfélag Íslands sýndi í verki að það kunni að meta starf Jóhanns Þorvaldssonar og hann var gerður að heiðursfélaga þess þegar hann varð áttræður og félagið gaf við það tækifæri plöntur í trjálund sem bera skal nafn Jóhanns og halda þannig minningu hans á lofti um ókomin ár. Þessi lundur er nú í hættu af áformuðum vegaframkvæmdum.

Aðdragandinn að ákvörðuninni um vegarstæðið hófst með því að Vegagerðin skilaði tillögu um að leggja veginn þvert í gegnum skógræktina. Bæjarfulltrúarnir báru gæfu til að hafna þeirri hugmynd en brast manndóm eins og fyrr er frá sagt til að vísa frá öllum hugmyndum um að skerða umráðasvæði Skógræktarinnar. Þó er um margar aðrar leiðir að velja eins og til dæmis að leggja veginn norðan við Grísarána. En þeir telja trúlega þá leið sem þeir endanlega völdu vera ásættanlega málamiðlun við tillögur Vegagerðarinnar en eru meðvitaðir um skaðann sem hún veldur og hafa enda boðið fram peningalegar bætur fyrir átroðninginn og skemmdirnar. Eftir bótum hefur Skógræktarfélagið ekki sóst og vonandi lærist bæjarfulltrúunum fyrr en síðar að til eru þeir hlutir í lífinu, sem hvorki verða keyptir eða bættir með fé. Þannig er því farið með Skógræktina í Siglufirði. Hún er lifandi merki um mann sem lét hvorki hrakspár né úrtölur hindra sig í að hrinda í framkvæmd fagurri draumsýn. Þennan minnisvarða ætti enginn að hafa leyfi til að skaða.

Ég verð að lokum að játa að mér er innanbrjósts eins og manni, sem er að bera heimilisböl sitt á torg þegar ég bið um birtingu á þessari grein, því ég sem Siglfirðingur skammast mín fyrir þetta skilningsleysi bæjaryfirvalda. En ég kem ekki auga á aðra leið til að vekja athygli á þeirri ósvinnu sem bæjarstjórn Siglufjarðar ásamt Vegagerðinni hefur samþykkt. Það er einlæg von mín að einhverjir aðrir en við í Skógræktarfélaginu geti haft meiri áhrif á ráðamenn bæjarins og Vegagerðarinnar og reyni að fá þá til að hætta við áform sín og breyta legu vegarins þannig að Skógræktin fái að vera í friði. Við förum ekki fram á annað eða meira.

Höfundur er gjaldkeri Skógræktarfélags Siglufjarðar.