[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Almenningur á Vesturlöndum, þá sérstaklega konur, hefur á síðustu tímum tekið upp á því að bera kórónur gerðar úr ódýrari efnum við hin ýmsu tækifæri. Dæmi um það eru brúðir sem skarta kórónunum við glæsilega brúðarkjóla.

Almenningur á Vesturlöndum, þá sérstaklega konur, hefur á síðustu tímum tekið upp á því að bera kórónur gerðar úr ódýrari efnum við hin ýmsu tækifæri. Dæmi um það eru brúðir sem skarta kórónunum við glæsilega brúðarkjóla. Fegurðardrottningar um heim allan eru krýndar með veglegri kórónu og halda á veldissprota til að undirstrika drottningarímyndina. Nýlega mátti sjá tvær glæsilegar leikkonur, þær Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur og Halldóru Geirharðsdóttur, bera kórónur við verðlaunaafhendingu Edduhátíðarinnar og voru þær þar með orðnar óyfirlýstar drottningar kvöldsins.

Ungur textílhönnuður, Sigríður Ásta Árnadóttir, hefur það að atvinnu að búa til kórónur eftir pöntun. Sigríður segir að það sé mjög áhugavert að geta mótað kórónurnar eftir útliti og persónuleika hverrar konu, en það séu eingöngu konur sem beri kórónur nú til dags.

Afmælis- og útskriftarkórónur

Tilefnin sem konurnar bera kórónurnar eru mörg og ólík.

Flestar af kórónunum sem Sigríður Ásta hefur smíðað eru brúðkaupskórónur eða brúðarmeyjakórónur.

Hún segist líka hafa verið beðin að gera afmæliskórónu fyrir stúlku sem var að verða sex ára og í tilefni útskriftar stúlku úr Háskóla Íslands. Eitt sinn fékk hún pöntun um að gera kórónu fyrir konu sem var að fara á glæsilegan dansleik í Vínarborg.

"Ég var að tala við unglingsstúlku um daginn sem fermist á næstunni en sú ætlar að fá mig til að útbúa kórónu af því tilefni," segir Sigríður Ásta.

"Svo hef ég gert fegurðardrottingarkórónu. Það atvikaðist þannig að Rósa Ingólfsdóttir, sem er framkvæmdastjóri fegurðarsamkeppninnar í Færeyjum, bað mig að smíða kórónu fyrir sig og bjó ég til stóra kórónu af því tilefni."

Af öllum stærðum og gerðum

Þótt Sigríður Ásta geti búið til kórónur af öllum stærðum og gerðum eru þær sem hún er beðin um að búa til yfirleitt frekar fíngerðar. Þær eru handgerðar úr silfur-, kopar- og stálvír og steinarnir og perlurnar eru úr gleri. "Ég vef vírnum utan um steinana en nota ekki lím."

Aðdragandinn að því að hún fór út í kórónusmíðina er sá að hún var með sýningu í fyrra í sýningarsal Myndlista- og handíðaskólans í galleríinu Nema hvað á Skólavörðustígnum. Þar sýndi hún nokkrar kórónur sem voru ólíkar að lit og lögun. "Ég bauð fólki að prófa kórónurnar, velja þá sem þeim litist best á og fékk að taka poloroid-myndir af því með þær á höfðinu. Svo hengdi ég myndirnar upp jafnóðum. Þetta var eins konar gestabók sýningarinnar og um leið voru myndirnar oft ótrúlega karakterlýsandi."

Sigríður Ásta er spurð hvernig sýningargestir hafi tekið þessu uppátæki.

"Það þurfti varla að ganga á eftir nokkrum manni. Fólk er að eðlisfari glysgjarnt og fyrir það að bregða sér í annað hlutverk."

Hvaða erindi á kórónan til nútíma-Íslendinga?

"Ég hitti sænska konu í sumar sem sagði að sér fyndist kórónurnar mínar mjög íslenskar, ekki síst vegna þess að form þeirra og öll gerð er afar frjálsleg. Ég held að þetta sé rétt hjá konunni, við Íslendingar erum svo miklir einstaklingshyggjumenn. Hefur ekki verið sagt að á Íslandi séu allir kóngar?"