SKOSKUR dómari úrskurðaði í fyrradag, að réttað skyldi yfir tveimur Líbýumönnum, sem sakaðir eru um að hafa grandað farþegaflugvél yfir Lockerbie í Skotlandi 21. des. 1988. Með vélinni fórust 259 manns og 11 á jörðu niðri.

SKOSKUR dómari úrskurðaði í fyrradag, að réttað skyldi yfir tveimur Líbýumönnum, sem sakaðir eru um að hafa grandað farþegaflugvél yfir Lockerbie í Skotlandi 21. des. 1988. Með vélinni fórust 259 manns og 11 á jörðu niðri. Réttarhöldunum var frestað til 3. maí nk. til að gefa verjendum mannanna tíma til að undirbúa vörnina.

Verjendur mannanna höfðu krafist þess, að málinu yrði vísað frá vegna þess, að hryðjuverkið hafði ekki verið skipulagt í Skotlandi eða innan skoskrar lögsögu en dómarinn, Ranald Sutherland lávarður, vísaði þeirri röksemd á bug og úrskurðaði, að skoskir dómstólar hefðu fulla lögsögu í málinu. Þá hafnaði hann einnig þeirri fullyrðingu verjendanna, að tengsl mannanna við líbýsku leyniþjónustuna væru málinu óviðkomandi.

Réttað er yfir Líbýumönnunum, Abdel Basset Ali al-Megrahi og Lamen Khalifa Fhimah, í Camp Zeist í Hollandi en þar var áður bandarísk flugstöð. Féllst Líbýustjórn á þá málamiðlun en litið er á flugstöðina sem skoskt landsvæði meðan á réttarhöldunum stendur.

Ef mennirnir verða fundnir sekir má búast við, að þeir verði dæmdir í lífstíðarfangelsi í Skotlandi.