LÖGFRÆÐINGUR Raouls Wutrichs, svissnesk-bandaríska drengsins, sem sakaður var um sifjaspell í Colorado í Bandaríkjunum, ætlar að höfða skaðabótamál á hendur yfirvöldum í ríkinu.

LÖGFRÆÐINGUR Raouls Wutrichs, svissnesk-bandaríska drengsins, sem sakaður var um sifjaspell í Colorado í Bandaríkjunum, ætlar að höfða skaðabótamál á hendur yfirvöldum í ríkinu.

Vincent Todd, lögfræðingur Wutrichs, vildi ekkert um væntanlega málshöfðun segja í gær en sjónvarpsstöð í Denver sagði, að Wutrich-fjölskyldan ætlaði að krefjast skaðabóta af lögregluyfirvöldum í Jefferson-sýslu og einnig af yfirvöldum í ríkinu. Ætlaði hún að krefjast samtals 58 milljóna ísl. kr.

Raoul var 10 ára er hann var handtekinn seint um kvöld 30. ágúst sl. og færður burt í handjárnum. Var ástæðan sú, að ein nágrannakona hans taldi hann hafa snert fimm ára gamla systur sína með "kynferðislegum hætti". Sjálfur sagðist hann aðeins hafa verið að hjálpa henni að pissa.

Raoul var haldið í sex vikur á upptökuheimili og síðan ákærður fyrir sifjaspell og kynferðislega árás á barn. Dómarinn vísaði hins vegar málinu frá vegna þess, að réttur Raouls á skjótum réttarhöldum hefði ekki verið virtur.

Þetta mál olli mikilli hneykslan í Sviss og víðar í Evrópu þar sem það þekkist ekki að handtaka og fangelsa 10 ára gömul börn.