[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigrún Huld Hrafnsdóttir, fyrrum ólympíumeistari í sundi þroskaheftra, hefur hengt sundbolinn til þerris en einbeitt sér þess í stað að myndlist og keilu. Hrönn Marinósdóttir átti fund með konunni kappsfullu og glaðværu.

HÚN svífur inn í stofuna heima í Akraseli og það geislar af henni lífsþróttur. "Hæ, hvað heitir þú?" Ég heiti Hrönn og er blaðamaður á Morgunblaðinu "Ertu ekki komin til að tala við mig?" spyr hún og brosir breitt. Blaðamaður jánkar. "Viltu ná í kaffi handa okkur, Sigrún Huld mín?" spyr móðir hennar Kristín Erlingsdóttir." Já, ég skal gera það en ég hef bara einu sinni drukkið kaffi, það var veturinn 87 og mér varð óglatt. Mér finnst kakó betra," upplýsir hún en skokkar síðan léttfætt inn í eldhús til þess að ná í kaffibolla og gos handa sér.

Sigrún Huld er önnum kafin kona. Þennan dag var hún nýkomin úr vinnunni en frá því að námi í Öskjuhlíðarskóla lauk fyrir tólf árum hefur hún verið í hlutastarfi hjá Nóa-Siríus, súkkulaðiverksmiðjunni. "Ég vinn núna í suðunni," segir hún.

Leitun er að fólki sem á eins mörg áhugamál og Sigrún Huld, það er ekki eitt heldur allt sem vekur áhuga hennar en auk þess á hún heilan her af góðum vinum. Í gær fór ég á Pizza Hut með saumaklúbbnum; Guðrúnu Ólafs, Báru, Elínu Helgu, Ágústu og John sem er kærasti Ágústu. Síðan fórum við á James Bond, myndin var búin klukkan 23.25. "

Allar myndirnar uppseldar

Eins og mörgum er kunnugt á Sigrún Huld að baki farsælan feril í sundíþróttinni og íbúð hennar á jarðhæð hússins við Akrasel ber þess glögg merki. Foreldrar hennar, Kristín og Hrafn Magnússon, búa á efri hæðinni. Innan um húsgögnin hennar fínu eru nánast óteljandi bikarar og verðlaunapeningar. Fyrir þremur árum, eftir sigurför á Ólympíuleikana í Atlanta, ákvað hún að hætta í sundi og sinna öðrum hugðarefnum.

Myndlist varð meðal annars fyrir valinu og fljótlega tóku að berast þær fréttir að á ferðinni væri fær og afkastamikill málari.

Á fyrstu einkasýningunni sem hún hélt í Eden sl. sumar seldust allar myndirnar hennar, 47 talsins. "Þú komst ekki á sýninguna," segir Sigrún Huld hálfundrandi, "það var bara ein mynd eftir síðasta daginn." Blaðamaður segist því miður ekki hafa vitað af sýningunni en fýsi hins vegar að sjá samsýningu þroskaheftra listamanna, sem Sigrún Huld tekur þátt í, í janúar nk í Hinu húsinu.

Nýlega hlotnaðist Sigrúnu Huld einnig sá heiður að skreyta nýjustu jólakort Umsóknarfélags einhverfra ásamt Ísak Óla Sævarssyni. Á kortin sín teiknaði hún mynd úr bakgarðinum heima hjá myndlistarkonunni Lóu Guðjónsdóttur; litla fugla, tré og snjó. Lóa hefur haft á orði að Sigrún Huld sé snillingur og stundum tekur hún sjálf undir það. "Er ég ekki mikill snilli?"

"Sigrún Huld hefur teiknað frá hún var lítil stelpa," segir Kristín, "til að byrja með málaði hún alltaf myndir af sér í eins konar fangabúðum; undir rúmi eða bak við rimla ."

Sigrún Huld hafði mörg einkenni einhverfu, að sögn móður sinnar, en hefur ekki verið greind einhverf þar sem læknar hérlendis vissu lítið um einhverfu þegar hún var barn. "Að margra mati var hún samt skólabókardæmi um einhverfu. Til dæmis grét hún þegar við tókum hana í fangið, hún átti erfitt með að mynda tengsl við fólk og byrjaði ekki að tala fyrr en á sjöunda ári. Þetta voru erfiðir tímar, þar sem læknavísindin á þeim árum álitu jafnvel að einhverfan væri uppeldinu að kenna. Við uppgötvuðum að ekki væri allt með felldu þegar Sigrún Huld var á öðru ári og fórum með hana til lækna sem fundu þá ekkert athugavert.

Sem betur fer náðum við okkur í erlent lesefni um einhverfu og vissum því hvað amaði að."

Sigrún Huld var á barnageðdeildinni á Dalbraut frá 4-6 ára en fór síðan í Öskjuhlíðarskóla og útskrifaðist þaðan 18 ára. "Skólinn hefur gert henni margt gott en einnig hefur hún þroskast mikið í gegnum íþróttir og myndlistina, til dæmis eru ekki nema nokkur ár síðan hún fór að faðma okkur foreldrana."

Stefnir á Ólympíuleikana í keilu

Sundið heillar Sigrúnu Huld ekki lengur, enda eru fimmtán ár nánast samfellt ofan í sundlaug drjúgur tími. Öðrum íþróttum sinnti hún af kappi, samhliða sundinu æfði hún frjálsar íþróttir, hún hefur verið viðloðandi borðtennis í nokkur ár og stundað líkamsrækt í Mætti ásamt föður sínum. "En það er ekki hægt að gera allt sem mann langar," segir hún "og núna finnst mér langmest gaman í keilu. Ég fer í keilu tvisvar í viku í Keiluhöllina, á mánudögum æfi ég ein en á miðvikudögum hitti ég Sólveigu þjálfara og fleiri krakka. Ég er búinn í vinnunni 15.30, tek þá níuna en skipti á leiðinni og tek sjöuna 16.04. Kl. 16.25 er ég komin í Keiluhöllina."

Keiluíþróttin á vel við Sigrúnu Huld sem segist stundum taka fellur en á næsta ári, 25. maí nánar tiltekið, ætlar hún ásamt fleirum héðan að keppa á Special Olympics leikunum sem fram fara í Hollandi. Sigrún Huld hlakkar mikið til.

Hver dagur skipulagður

Hver dagur er yfirleitt vel skipulagður hja Sigrúnu Huld, hún hefur afar gott minni og móðir hennar segir að hægt sé að fletta upp í henni nánast hverju sem er, til dæmis hvenær tiltekin vinahjón komu síðast í heimsókn. Hún man einnig alla afmælisdaga en tölur og dagsetningar eru hennar sérgrein. "Ég vakna klukkan sjö ef ég fer í sturtu en korter yfir sjö ef ég fer ekki í sturtu. Oftast fer ég í sturtu. Ég er búin að vera með spangir frá 10. mars. Það var þriðjudagur og pabbi fór með mér í hádeginu. Spangirnar losna ég við í efri góm 17. desember og í neðri góm 21. desember."

Reiðhjól hefur Sigrún Huld átt frá árinu 1991 og þegar hlýtt er í veðri hjólar hún ofan úr Breiðholtinu og í vinnuna í Hesthálsi. Það er gaman í vinnunni en ég er í sælgætisbanni," segir hún.

Svo fáum við að vita að á veturna taki hún yfirleitt strætivagn númer átta kl. 7.38 en áttan hefur verið töluvert sein undanfarið vegna hálkunnar. Hún hefur því stimplað sig inn kl. 8.06. Kaffitími er klukkan 9 og pása klukkan 10.50.

Kristín segir að samstarfsmenn Sigrunar Huldar í Nóa -Siríusi séu ákaflega góðir við hana og Sigrúnu langar að bjóða þeim í þrítugsafmælið sitt 12. janúar.

"Á hvaða síðu kemur þetta í blaðinu?" spyr Sigrun Huld skyndilega.

"Á morgun ætla ég í Kringluna að selja jólakort en á eftir fer ég til Lóu myndlistarkonu. Við ætlum að mála mynd og gera."

Þá berst talið að frændum Sigrúnar Huldar. Hún passar þá stundum, þrjá hressa stráka sem systkini hennar, Magnús Freyr og Tinna, eiga. "Hrafn litli er skemmtilegur en stundum er hann dálítið frekur við mig. Tinna þurfti að skamma hann um daginn."

" Kostur Sigrúnar Huldar er fyrst og fremst glaðværðin, hún er mjög jákvæð og hefur átt því láni að fagna að hafa aldrei verið strítt.Við Hrafn ræðum oft við hana um hennar hlutskipti, að hún sé þroskaheft og þurfi að sætta sig við það eins og sumir þurfa að sætta sig við að vera blindir eða mállausir."

Að mati Kristínar er það ekki heppilegt að einblína eingöngu á að þroskaheftir gangi í almennan grunnskóla, því litlar líkur eru á að þau eignist góða vini þar. "Sigrún Huld eignaðist bestu vinina í Öskjuhlíðarskóla, vini sem hún heldur ennþá tryggð við. Líkur sækir líkan heim, segir máltækið, og ég tel aðþroskaheftu börnin fari á mis við þátttöku í félagslífi ef þau eru í blönduðum bekkjum, auk þess er meiri hætta á að þau finni til smæðar sinnar.

Ég er einnig á móti þeirri stefnu sem nú ríkir að þroskaheftir búi einir, einhvers staðar úti í bæ, því fylgir oft mikil einangrun og óöryggi sem getur ýtt undir þunglyndi. Þroskaheftir þurfa stuðning."

Hvað sem öllu líður er ljóst að Sigrun Huld er hæstánægð með lífið og tilveruna. Hún ber höfuðið hátt enda engin ástæða til annars.