VÍKVERJI dagsins er einn af þeim mörgu sem hafa sætt sig við dálítinn hluta af tækniþróuninni og fengið sér farsíma. Ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan þessi tímamót urðu í lífi hans.

VÍKVERJI dagsins er einn af þeim mörgu sem hafa sætt sig við dálítinn hluta af tækniþróuninni og fengið sér farsíma. Ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan þessi tímamót urðu í lífi hans.

Fyrst í stað setti Víkverji að sjálfsögðu upp kæruleysislegan svip heimsmannsins þegar farsímamálin bar á góma, lét þó sjást að hann væri kominn út úr Neanderdal þeirra sem eru á móti hjólinu. Sem hann er nú stundum.

Hann leyndi því ekki að hann ætti tækið sem hann uppgötvaði svo sér til armæðu að annar hver unglingur lítur á eins og jafn sjálfsagðan hlut og útvarp eða geislaspilara. Þar er það ekki spurningin hvort fólk á farsíma, miklu fremur hvort hann er af réttum lit og hvort maður kann að nota SMS og önnur furðufyrirbæri. En Víkverji var ekkert að segja frá því hvað honum gekk illa að læra á gripinn. Og leikina gat hann ekki notað, hann skildi þá ekki, var of svifaseinn og takkarnir of litlir.

Mestu skipti þó að verða ekki of háður þessum nýju þægindum, sagði hann við sjálfan sig, tæknin á ekki að stýra okkur heldur við henni. Auk þess kostar það sitt að ofnota símann.

Þetta voru fögur fyrirheit. Víkverji varð svo fyrir því óláni að týna símanum sínum í útlöndum og fann strax á öðrum degi til greinilegra fráhvarfseinkenna. Hann fitlaði við vasann þar sem gersemin átti að vera, furðaði sig í undirmeðvitundinni á því að þar var ekki neitt, gapandi tóm og dálítil ló. Hann velti fyrir sér að stinga sápustykki eða annarri varaskeifu í tóma vasann en sá að sér.

Og ekki leið heill sólarhringur frá heimkomunni, þá var Víkverji farinn að skarta nýjum farsíma. Nú er taugakerfið komið í samt lag. Og Víkverji hefur aftur stjórn á tækninni.

XXX

Margir eru nú farnir að finna sama óljósa óttann og Víkverji vegna jólagjafakaupanna. Auðvitað er oft gaman að finna eitthvað sem hentar vel og vekur fögnuð hjá börnunum en viðfangsefnið getur líka verið snúið, svona í fyrstu atrennu.

Sjálfur þurfti Víkverji, sem hefur ekki sjálfur reynslu af barnauppeldi, að kaupa barnaföt fyrir síðustu jól. Auðveldasta leiðin var að biðja einhvern þjálfaðan ættingja að annast þetta fyrir sig, setja upp örvæntingarsvip sem stundum nýtist vel.

En hann tók þá hetjulegu ákvörðun að ganga sjálfur í málið og sjá, það tókst! Afgreiðslufólkið, yfirleitt konur en í einu tilviki karlmaður af erlendum uppruna, reyndist honum vel. Það hafði greinilega gaman af að fræða þann sem ekkert vissi og var þess vegna þakklátur. Vafalaust var hann líka nokkuð trúgjarn en allt gekk þetta vel. Hann lærði til dæmis nokkuð sem ætti reyndar að vera öllum meðalgreindum neytendum ljóst, sem sé að barnaföt eru venjulega keypt vel við vöxt. Börn stækka hratt og í fleiri áttir en við gamlingjarnir.

Þótt þessi frumraun tækist vel langar Víkverja til að spyrja hvort ekki sé einhvers staðar boðið upp á námskeið í jólagjafainnkaupum. Þar þyrfti að vera hægt að velja undirflokka eins og barnaföt, leikföng, skartgripi, geisladiska fyrir unglinga og fleira. Þótt ekki sé hægt að velja beinínis fyrir fólk hlýtur að vera hægt að gefa nokkur almenn ráð.